„Það er eitthvað líf eins og er en búið að vera frekar dapurt hingað til,“ segir Atli Eysteinsson, stýrimaður á Berki NK, sem er á makríl í Smugunni, rétt handan norsku lögsögunnar.

Íslensku bátarnir hafa nú verið í á aðra viku í Smugunni að sögn Atla. Þegar rætt var við hann í gær, þriðjudag, var Börkur nýkominn á miðin aftur.

„Það kemur skot og skot,“ lýsir Atli veiðinni. „Það er betra núna en í gær að minnsta kosti. Í morgun vorum við með sjötíu tonn, sem er ekki nógu gott.“

Fimm skip í samveiði

Börkur er í samveiði með fjórum öðrum skipum; Beiti NK, Barða NK, Vilhelm Þorsteinssyni EA og Margréti EA. „Við erum eingöngu með það þannig, það gerir ferskari afla fyrir okkur en að reyna að veiða einir og fá lítið.“ Frá því þeir komu út aftur hafi þeir sett tvö hol um borð í Vilhelm, fyrrnefnd sjötíu tonn og þrjátíu tonn.

Makríllinn sem veiðist núna í Smugunni er talsvert minni en sá sem veiddist í íslensku lögsögunni á dögunum eða 410 til 430 grömm.

Heitari sjór en við Ísland

„Fiskurinn í íslensku lögsögunni er  sterkari, það er svo heitur sjór hérna. Það er ekki kostur upp á ferskleikann að gera,“ segir Atli. Sjávarhitinn á miðunum í Smugunni sé fjórtán gráður en menn hafi verið að veiða í alveg niður í átta stiga heitum sjó í lögsögunni.

„Makríllinn er slakari hérna úti, hann er minni og mýkri,“ segir Atli, sem kveður allan fiskinn fara í frystingu. „Það eru bara mismunandi gæði. Það er reynt að vinna hvern einasta sporð.“

Íslensku skipin halda sig saman og talsvert af rússneskum skipum er þar norðaustur af. „Það er verið að dreifa sér og finna einhverja bletti til að moðast í,“ segir Atli, sem aðspurður kveðst lítast vel á framhaldið. „Það þýðir ekkert annað en að brosa á þetta. Það er bara verra ef maður ætlar að vera neikvæður.“