Sjávarklasi að íslenskri fyrirmynd var stofnaður í Skotlandi í marsmánuði, The Scottish Ocean Cluster. Bakhjarl klasans er Seafood Scotland, samtök sérfræðinga sem veita sjávarútvegsfyrirtækjum og einstaklingum ráðgjöf og stuðning á sviði nýsköpunar, markaðssetningar og á fleiri sviðum.
Donna Fordyce, framkvæmdastjóri Skoska sjávarklasans, hefur verið tíður gestur á Íslandi þar sem hún hefur sótt innblástur í starfsemi Íslenska sjávarklasans. Markmið hennar og skoska sjávarklasans er hið sama og þess íslenska – að ná sem mestum verðmætum út úr takmarkaðri auðlind.

Fordyce kynnti stofnun Skoska sjávarklasans á ráðstefnu Seturs nýjunga í iðnaðarlíftækni í Glasgow í mars. Þar hvatti hún stofnanir innan sjávarútvegs í Skotlandi til að fylkja sér að baki stofnun klasans sem hún sagði sækja innblástur til Íslenska sjávarklasans. Samstarfsaðilar Skoska sjávarklasans eru IBioIC, Zero Waste Scotland, Opportunity North East og Aberdeenshire Council sem hyggjast leiða saman útgerðir, fiskvinnslur, fjárfesta, rannsóknastofnanir, smásöluaðila, stjórnvöld og líftæknifyrirtæki til samstarfs í líkingu við það sem ástundað er hjá Íslenska sjávarklasanum og notið hefur mikillar velgengni.
60 stofnanir til liðs við klasann
Unnið er að því að treysta fjárhagslegan grundvöll Skoska sjávarklasans en frjór jarðvegur virðist fyrir stofnun hans. Seafood Scotland tilkynnti til að mynda í aðdraganda Seafood Expo Global sjávarútvegssýningarinnar í Barcelona í þarsíðustu viku, að hátt í 60 stofnanir á ólíkum sviðum hefðu heitið stuðningi sínum við stofnun klasans. Fordyce brennur fyrir því að koma á áætlun til að vinna meiri verðmæti úr sjávarafurðum í Skotlandi og hefur, sem fyrr segir, aflað sér þekkingar á uppbyggingu sjávarklasa með heimsóknum til Íslands. „Eins og Íslenski sjávarklasinn stendur Skoski sjávarklasinn fyrir samstarfi fyrirtækja innan greinarinnar og þörf er fyrir framsýna hugsun til að knýja greinina inn í sjálfbærari og arðbærari framtíð,“ segir Fordyce.
„Það að leiða saman sérhæfingu á sviði líftækni og nýsköpunar í sjávarútvegi, eins og Þór Sigfússon, stofnandi Íslenska sjávarklasans, og Alexandra Leeper framkvæmdastjóri ásamt teymi þeirra á Íslandi hafa gert, getur leitt til þreföldunar í verðmætum í hliðaafurðum innan skosks sjávarútvegs. Að ná meiri verðmætum út úr sjávarfangi gæti verið vítamínsprauta fyrir greinina og stofnanirnar að baki henni,“ segir Fordyce.
Alexandra Leeper, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, hefur lýst stuðningi sínum við stofnun Skoska sjávarklasans. „Íslenski sjávarklasinn er hæstánægður með að sjá fyrstu skrefin í þá átt að stofna sjávarklasa í Skotlandi. Við gleðjumst yfir því að geta boðið Skoska sjávarklasann velkominn um borð í alþjóðlegt systurklasanet okkar.“
Donna Fordyce hélt erindi á ráðstefnunni Fish Waste for Profit í Reykjavík í Íslandsheimsókn sinni. Ennfremur var henni boðið í heimsókn til nokkurra íslenskra fyrirtækja sem eru framarlega á sviði nýtingar á hliðarafurðum, til að mynda Kerecis sem framleiðir vörur fyrir sár og húðvörur úr fiskroði. Verið er að setja upp sjávarklasa að íslenskri fyrirmynd á Grænlandi, í Oregon í Bandaríkjunum, Ástralíu, Vötnunum miklu í Bandaríkjunum, Namibíu og Danmörku.