Samtök sjómanna skoskra uppsjávarskipa (SPFA) hafa þungar áhyggjur af því að Evrópusambandið hyggist afsala sér stórum hluta makrílkvóta Skotlands í viðleitni sinni til þess að ná samkomulagi við Ísland og Færeyjar í makríldeilunni. Þennan boðskap munu fulltrúar sambandsins flytja Richard Lochhead sjávarútvegsráðherra Skotlands á fundi sem þeir eiga með honum á morgun, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com.

Skosku sjómennirnir segja að fregnir innan úr framkvæmdastjórn ESB bendi til þess að sambandið vilji ná lausn í makríldeilunni hvað sem það kosti. Þeir benda á að Norðmenn hafi tekið mun harðari afstöðu í deilunni en ESB og séu ekki tilbúnir til að láta af hendi fiskveiðiréttindi sín vegna ,,glannalegrar” hegðunar Íslendinga og Færeyinga.

Skotarnir  kveðast munu lýsa yfir fullum stuðningi við afstöðu Norðmanna á fundi sínum með skoska sjávarútvegsráðherranum og segja að sá skilningur að ,,glæpir borgi sig” megi ekki ná yfirhöndinni. Einnig vilji þeir fá svör við því hvað orðið hafi um refsiaðgerðirnar gegn Íslandi og Færeyjum sem evrópskum sjómönnum hafi verið lofað í byrjun október síðastliðnum.

Næsti viðræðufundur í makríldeilunni verða haldnar á Írlandi hinn 6. desember næstkomandi.