Breska matvörukeðjan Waitrose og samtök um velfarnað uppsjávarstofna Norðaustur-Atlantshafsins, NAPA (North Atlantic Pelagic Group), hafa birt áskorun til strandríkjanna sem stunda veiðar úr deilistofnunum þremur um að komast að samkomulagi um stjórnun veiðanna.

„Við erum staðráðin í því að ná markmiði okkar sem er að allur sá fiskur og skelfiskur sem við seljum sé með óháða vottun um að hann sé fenginn með ábyrgum veiðum,“ segir Melissa Tillotson, framkvæmdastjóri hjá Waitrose and Partners. Hún segir keðjuna hafa miklar áhyggjur að veiðar uppsjávarstofnanna þriggja, makríls, síldar og kolmunna, lúti ekki veiðistjórnun sem tryggi sjálfbærni þeirra.

Bretar hafa stýrt viðræðunum undanfarið ár og leggja mikla áherslu á að samkomulag takist núna fyrir marslok, þegar þeirra forystuhlutverki lýkur. Fundað hefur verið stíft í vetur, meira en nokkru sinni og yfirlýsingin frá Waitrose og NAPA setur aukna pressu á strandríkin.

Stefnt er á tvær fundarlotur nú í marsmánuði.

Ekkert samkomulag hefur tekist um skiptingu veiðanna milli ríkjanna, þótt þau hafi ár hvert komið sér saman um að veiða samtals ekki meira en Alþjóðahafrannsóknaráðið leggur til. Afleiðingin hefur verið sú að hvert ár hefur heildarveiðin í reynd farið töluvert fram úr ráðgjöfinni.