Skonnortan Hildur, nýjasti bátur Norðursiglingar á Húsavík, mun sigla til heimahafnar á Húsavík á morgun, föstudaginn 16. júlí, eftir gagngerar breytingar í C.J. Skibs- og Bådebyggeri í Egernsund í Danmörku.
Báturinn var upphaflega byggður árið 1974 á Akureyri af skipasmiðunum Trausta og Gunnlaugi. Norðursigling keypti bátinn síðast liðið sumar frá Stöðvarfirði en hann hét þá Héðinn HF 28. Um haustið hlaut báturinn nafnið Hildur og var henni siglt til Danmerkur þar sem henni var breytt í tveggja mastra skonnortu.
Þar með eru hefðbundnar skonnortur við strendur Íslands orðnar tvær en fyrir á Norðursigling skonnortuna Hauk. Báðum skonnortunum svipar mjög til fiskiskonnorta þeirra sem algengar voru á hákarlaveiðum við Norðurland á 19. öldinni en eitt meginmarkmiða Norðursiglingar hefur frá upphafi verið varðveisla gamalla, íslenskra eikarbáta og um leið að viðhalda kunnáttu sem nærri er gleymd.
Tekið verður á móti Hildi með viðhöfn á Húsavík á morgun klukkan 9 árdegis þar sem hún mun sigla inn höfnina í fylgd annarra báta Norðursiglingar. Innan tíðar slæst hún svo í för með þeim í hvala- og náttúruskoðun um Skjálfandaflóa en verður einnig tiltæk í sérhæfðari verkefni.