Samkeppniseftirlitið ætlar í tilefni kaupa Síldarvinnslunnar á helmingshlut í Ice Fresh Seafood að skoða tengsl útgerðarfyrirtækisins við Samherja og hvort „samband þeirra sé svo náið að það jafngildir einni efnahagslegri einingu en ekki samstarfi sjálfstæðra keppinauta,“ eins og segir í tilkynningu.
„Eitt af þeim atriðum sem þarfnast nánari rannsóknar í þessu máli eru tengsl Samherja og Síldarvinnslunnar, bæði fyrir og eftir samrunann, þar með talið hvaða áhrif kaup Síldarvinnslunnar og sameiginleg yfirráð með Samherja í Ice Fresh Seafood hafa í því samhengi,“ segir í tilkynningunni sem fylgir í heild hér að neðan:
„Samkeppniseftirlitinu hefur nýverið borist tilkynning um kaup Síldarvinnslunnar hf. á 50% hlut í Ice Fresh Seafood ehf. o.fl. af Samherja hf. Með þeim kaupum munu sjávarútvegsfyrirtækin fara með sameiginleg yfirráð í Ice Fresh Seafood og það félag framvegis sjá um sölu og markaðssetningu þeirra afurða sem bæði Samherji og Síldarvinnslan framleiða, þ.e. íslenskar sjávarafurðir.
Samkeppniseftirlitið hefur áður fjallað um tengsl milli Síldarvinnslunnar og Samherja, m.a. í ákvörðunum nr. 2/2021 og 28/2022 þar sem gerð er grein fyrir talsverðum stjórnunar-, eignar- og viðskiptatengslum milli Síldarvinnslunnar og Samherja, ásamt Gjögur hf./Kjálkanesi hf. Hafa þessi atriði verið talin veita vísbendingu um að stofnast hafi mögulega til yfirráða yfir Síldarvinnslunnar umfram það sem áður hefur komið fram í tilkynningum til Samkeppniseftirlitsins. Ekki hefur hins vegar verið talin þörf á því að leiða þetta til lykta í fyrri samrunamálum.
Tilkynningarskyldir samrunar eiga sér stað samkvæmt samkeppnislögum þegar breytingar verða á yfirráðum. Eitt af þeim atriðum sem þarfnast nánari rannsóknar í þessu máli eru tengsl Samherja og Síldarvinnslunnar, bæði fyrir og eftir samrunann, þar með talið hvaða áhrif kaup Síldarvinnslunnar og sameiginleg yfirráð með Samherja í Ice Fresh Seafood hafa í því samhengi.
Verður það því sérstakt athugunarefni hvort slík tengsl séu til staðar, eða séu að myndast með kaupunum, að líta beri á félögin sem eitt og sama fyrirtækið (í samkeppnisrétti nefnt ein efnahagsleg eining), þ.e. hvort samband þeirra sé svo náið að það jafngildir einni efnahagslegri einingu en ekki samstarfi sjálfstæðra keppinauta.
Nánari upplýsingar um samrunann má finna hér í svonefndri samrunaskrá.
Samkeppniseftirlitið veitir hér með hverjum þeim sem hagsmuni eða áhuga hefur færi á því að koma á framfæri umsögnum, athugasemdum og/eða sjónarmiðum um viðskiptin, svo sem um eignar- og stjórnunarleg tengsl þessara fyrirtækja, hvort líta megi á þau sem eina efnahagslega einingu í skilningi samkeppnislag, áhrif samrunans, stöðu markaða og virkni samkeppni á viðkomandi mörkuðum,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.