Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, segir eðlilegt og sjálfsagt að skoðað verði hvort heppilegra sé að selja byggðakvóta og nýta fjármuni í uppbyggingu á viðkomandi svæði. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn frá Sigurði Erni Ágústssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Vefurinn bb.is skýrir frá þessu.
Sigurður Örn spurði ráðherra hvort til greina kæmi að festa á sveitarfélög byggðakvóta sem þau gætu selt eða leigt frá sér og nýtt það fjármagn sem fengist í nýsköpun í heimabyggð. Samkvæmt gildandi lögum er meginreglan sú að byggðakvóta er úthlutað til veiða og vinnslu í þeim sveitarfélögum sem fá byggðakvóta til tímabundinnar ráðstöfunar. Í svari Sigurðar Inga kom fram að í lögum er engin heimild fyrir sveitarfélög til að selja eða leigja byggðakvóta með þessum hætti.