Um er að ræða framtíðarverkefni Fjarðabyggðahafna en Vöttur, núverandi dráttarbátur, er kominn til ára sinna og er með toggetu upp á 27,8 tonn.
Birgitta Rúnarsdóttir, verkefnisstjóri Fjarðabyggðahafna, segir að verið sé að skoða málin en engin ákvörðun hafi verið tekin um að kaupa nýjan dráttarbát. Málið sé á frumstigi. Dráttarbáturinn Vöttur þjónustar allar hafnirnar í hafnasamlaginu. Birgitta segir að niðurstaðan geti alveg orðið sú að þörf þyki fyrir fleiri dráttarbáta. Við Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði leggjast til að mynda stór súrálsflutningaskip.
Vöttur reynst vel
Vöttur var smíðaður af Damen og hafa framleiðendur reglulega kynnt hafnarstjórninni nýjungar á þessu sviði. Birgitta segir að reynslan af Vetti sé mjög góð en hann hefur verið í notkun hérlendis frá árinu 2007. Hann hafi fyllilega ráðið við verkefni í kringum stærstu skipin en það helgist ekki síður af góðri hafnaraðstöðu í Mjóeyrarhöfn.
Fjarðabyggðahafnir hafa dálítið farið varhluta af stærri skemmtiferðaskipunum sem sigla til Íslands. Mest hafi á einu sumri komið um 20 skemmtiferðaskip en ekkert af þeim allra stærstu sem gjarnan koma til Reykjavíkur og Akureyrar.
Birgitta segir að niðurstöður skoðanakönnunar meðal íbúa á Austurlandi sem gerð var fyrir um það bil tveimur árum hafi í leitt ljós vilja íbúanna til að halda sig við það að taka á móti litlum og meðalstórum skemmtiferðaskipum en síður þeim allra stærstu. Enda séu verkefnin mörg og af margvíslegu tagi.
Í Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði eru þrjú stór útgerðarfyrirtæki, stórt álver í Reyðarfirði og Norræna í áætlunarsiglingum til Seyðisfjarðar.