Spænski netmiðillinn La Sexta sem rætt hefur við aðstandendur skipverja sem bjargað var af fiskiskipinu Argos Georgia segir skipbrotsmennina hafa gengið í gegn um meira en „tuttugu tíma helvíti á hafinu“ eftir að skipinu hlekktist á síðastliðinn mánudag.
Hvolfdi tvisar og öldurnar börðu á þeim
Níu fórust og fjórir aðrir eru nú taldir af eftir að Argos Georgia sökk í aftakaveðri 200 sjómílur undan Falklandseyjum. Hefur La Sexta eftir aðstandendum skipverjanna sem bjargað var að sumir þeirra hafi sagst fremur hafa verið tilbúnir að deyja fremur en að halda lengur út í því helvíti sem þeir höfðu upplifað í meira en tuttugu klukkustundir á björgunarbátum skipsins.
„Þeim hvolfdi tvisvar. Þeir féllu í hafið og fengu átta til níu metra háar öldur yfir sig,“ er haft eftir José Manuel Pena, frænda skipstjórans á Argos Georgia og talsmaður fjölskyldu hans.
Lemstraðir og langt niðri
„Þeir sem lifðu af eru rækilega lemstraðir með marbletti yfir allan líkamann og áverka á höfði. Þeir eru óhemju þreyttir og langt niðri andlega,“ er síðan haft eftir José Antonio Fernández, sem sagður er kunnugur skipstjóranum. Skipverjarnir séu þó við ágæta heilsu miðað við aðstæður.
Þá segir spænska blaðið Onda Cero frá því að í dag muni verða send herflugvél eftir bæði þeim sem lifðu og þeim sem fundust látnir.
Leit heldur áfram
Þótt nú sé talið ljóst að þeir fjórir sem enn er saknað af Argos Georgia séu látnir verður leit að þeim haldið áfram þegar veður leyfir.
Skipið sem skráð er á St. Helenas er í eigu norska útgerðarfyrirtækisins Ervik Havfiske. Var það á þessum slóðum við veiðar á tannfiski. Sagt var frá tannfiskveiðum Ervik Havfiske í Fiskifréttum í október 2016. Kom þar meðal annars fram að tannfiskur væri að gefa 1,4 milljarð króna á hvern hinna þriggja línubáta sem félagið gerði út á þessar veiðar.