Agustson ehf. í Stykkishólmi, sem gert hefur út línubátinn Gullhólma SH í aflamarkskerfinu, hefur ákveðið að söðla um og flytja sig yfir í krókaaflamarkskerfið. Í því skyni er fyrirtækið með í smíðum 30 tonna krókaaflamarksbát hjá bátasmiðjunni Seiglu á Akureyri. Gullhólmi SH verður seldur en hann er 470 brúttótonn að stærð.

„Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er sú að við höfðum ekki nægilegar veiðiheimildir til þess að reka svo stóran bát sem Gullhólmi er með hagkvæmum hætti,“ segir Sigurður Ágústsson framkvæmdastjóri Agustson ehf. í samtali við Fiskifréttir. Þess má geta að 14 manns voru í áhöfn Gullhólma en 5-6 verða í áhöfn nýja bátsins. Aflinn verður slægður um borð sem tíðkast ekki á öðrum beitningarvélabátum í krókakerfinu.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.