25.000 tonna aukningu makrílkvótans á þessu ári er að mestu leyti ráðstafað til frystitogara, samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins. Þetta hefur hleypt illu blóði í forsvarsmenn uppsjávarútgerða.

,,Það er eins og menn séu búnir að gleyma því hverjir sköpuðu veiðireynslu Íslendinga í makrílnum sem krafa okkar um 16-17% hlutdeild í heildarstofninum byggist á í samningaviðræðum við aðrar þjóðir. Það voru uppsjávarveiðiskipin,” segir Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað í samtali við Fiskifréttir.

,,Hlutur frystitogaranna í makrílaflanum hækkar úr 6% í fyrra í 23% í ár. Hlutur uppsjávarskipanna, sem veiðiréttinn sköpuðu, minnkar hins vegar úr 92% niður í 72% af heildarkvótanum,” segir Gunnþór.

Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu svarar því til að með þessari ráðstöfun hafi ráðuneytið viljað stuðla að aukinni manneldisvinnslu á makríl. ,,Við vildum nýta frystigetu frystitogaranna til þess að taka við þessari aflaaukningu fremur en að deila henni út á uppsjávarskipin sem áfram fá stærstan hluta kvótans,” segir Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu í samtali við Fiskifréttir.

Sjá nánar andstæð sjónarmið í málinu í Fiskifréttum.