Danska strandgæslan þurfti að senda lögreglu um borð í flutningaskip úti fyrir strönd Norður-Sjálands sem sigldi óþægilega nálægt landi. Skipstjórinn var það drukkinn að hann gat ekki blásið í áfengismæli.
Flutningaskipið er um 1.400 tonn að stærð og 67 metra langt. Strandgæslan hafði lengi reynt að hafa sambandi við skipið þegar skipstjórinn loksins svaraði. Skipstjóri var talinn á að leiðrétta kúrsinn svo hann stefndi ekki lengur til lands. Hann var líka fenginn til að kasta ankerum.
Ekki þótti annað óhætt en að senda lögregluna um borð því rödd skipstjórans var drafandi og hann talaði samhengislaust. Í ljós kom að hann var dauðadrukkinn. Hann var látinn blása í áfengismæli en var svo drukkinn að hann megnaði það ekki. Því var farið með skipstjórann í land og blóðprufa tekin.
Skipið liggur enn meðan málið er í rannsókn en það er skráð í Suður-Afríku og var á leiðinni til Kalingrad í Rússlandi.