Dómur féll í Landsrétti í gær í máli sem skipverji á Júlíusi Geirmundssyni ÍS höfðaði á hendur skipstjóranum og framkvæmdastjóra og útgerðastjóra Hraðfrystihússins Gunnvör hf. Krafist var þess að skipstjórinn greiddi 2 milljónir kr. í miskabætur og hinir 1,5 milljónir kr. hvor. Bæjarins besta segir frá þessu.

Málshöfðandinn eða stefnandi var háseti um borð í veiðiferð sem hófst aðfaranótt 27. september 2020. Upp komu veikindi meðal skipverja og reyndist um að ræða Covid19. Stefndu vou sakaðir um að sýna af sér stórfellt gáleysi með þeirri háttsemi sem þeir viðhöfðu meðan á umræddri veiðiferð stóð og með því valdið stefnanda bæði líkamlegu og andlegu heilsutjóni.

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði 9. október 2023 framkvæmdastjórann og útgerðarstjórann en dæmdi skipstjórann til að greiða 400 þús. kr. í miskabætur og 1,8 m.kr. í málskostnað.

Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms varðandi framkvæmdastjórann og útgerðarstjórann en sneri við dómi skipstjórans og sýknaði hann. Málskostnaður milli aðila var felldur niður á báðum dómsstigum.

Landsréttur kemst að þeirri niðurstöðu að ekki liggur ekki fyrir að skipstjórinn hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með viðbrögðum sínum við veikindum skipverja, sem sé forsenda þess að um sekt gæti verið að ræða. Sjá nánar um þetta hér.