Skipstjóri og stýrimaður fraktskipsins Longdawn játuðu sök þegar mál ákæruvaldsins á hendur þeim var þingfest í dag.

Þetta kemur fram á Vísi þar sem segir að mönnunum tveimur hafi verið gefið að sök að hafa skilið skipstjóra strandveiðibátsins Höddu HF eftir í sjávarháska, eftir að hafa siglt skipinu á bátinn. Enn fremur hafi skipstjórinn játað að hafa verið drukkinn.

Í frétt Vísis segir að í ákæru á hendur mönnunum sem heiti Eduard Dektyarev sem hafi verið skipstjóri og Alexander Vasilyev sem 2. stýrimanni eru þeir sakaðir um hættubrot og brot gegn lífi og líkama og siglingalögum.

„Þeir hafi aðfaranótt fimmtudagsins 16. maí 2024, í kjölfar áreksturs flutningaskipsins og fiskiskipsins Höddu HF-52, látið farast fyrir að koma skipstjóra Höddu HF til hjálpar, þar sem hann var staddur í lífsháska, um 6,5 sjómílur norðvestur af Garðskaga, heldur, samkvæmt fyrirmælum Eduard, haldið för flutningaskipsins áfram, þrátt fyrir að Alexander hafi upplýst Eduard um áreksturinn og að hann teldi sig hafa séð Höddu HF-52 vera að sökkva,“ segir á visir.is þar sem nánar er fjallað um málið.