Þrír skipstjórar af skipum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eru sammála um að hvölum hefur fjölgað gríðarlega á miðunum, svo að til vandræða horfir við loðnuveiðar.

Þetta kemur fram í ítarlegri samantekt á heimasíðu fyrirtækisins þar sem áhyggjur af þróun loðnustofnsins eru kveikja skrifanna.

Þar er vísað til greinar sem Jóhann Sigurjónsson og Gísli A. Víkingsson, hvalasérfræðingum Hafrannsóknastofnunar, birtu árið 1997. Niðurstaða þeirra var á tímum skýrslunnar að gera mætti ráð fyrir að hvalir éti um tvær milljónir tonna af fiski á hafsvæðunum í nágrenni Íslands. Þá var hrefnan sú hvalategund sem talin var stórtækust.

Nú horfa menn þó ekki síður til hnúfubaksins sem hefur fjölgað margfalt á hafsvæðinu hér við land, og vitað að hann sækir mjög í loðnuna. Þvert á það sem menn héldu þá dvelur hnúfubakurinn hér við landið yfir veturinn í þúsunda vís. Miðað við rannsóknir frá Kanada er ekki ólíklegt að át hnúfubaksins telji í hundruðum þúsunda tonna til viðbótar við það sem aðrar tegundir hvala, stórra sem smárra, taka.

Því er að því spurt í greininni hvort ekki sé ástæða til að rannsaka ítarlega áhrif fjölgunar hvala á fiskistofnana. Er ekki full ástæða til að fjalla um áhrif fjölgunar hvala á loðnustofninn til dæmis? Er ekki nauðsynlegt að fram fari mat á því hvaða áhrif hvalafriðun hefur á fiskistofnana til framtíðar litið? Og er ekki brýnt að auka rannsóknir á fæðukeðjunni í hafinu? Allt eru þetta spurningar sem varpað er fram.

En þetta sögðu skipstjórar Síldarvinnsluskipa þegar heimasíða fyrirtækisins leitaði til þeirra:

Guðmundur Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA:

„Hvölunum virðist sífellt fara fjölgandi. Ég tók við skipstjórn á Vilhelm Þorsteinssyni árið 2001 og frá þeim tíma hefur hvölum örugglega fjölgað mikið. Síðustu árin sjást hvalir á þeim slóðum sem aldrei sást hvalur á áður. Það eru hvalir úti um allt. Eftir að loðnan fór að halda sig norður af landinu er þó minna um hvali sem fylgja loðnugöngunni. Hvalurinn virðist frekar kjósa að vera í loðnunni norðurfrá. Ég held að sé full ástæða til að hafa áhyggjur af þessari þróun og það er ljóst að aukin hvalagengd getur haft afar neikvæð áhrif á fiskistofna sem eru nýttir og eru efnahagslega mikilvægir.“

Sturla Þórðarson, skipstjóri á Beiti NK:

„Ég fór fyrst á loðnu árið 1973. Þá sást enginn hvalur. Ég fór síðan í fyrsta sinn á sumarloðnu 1976 og þá sáust tveir eða þrír hvalir á allri vertíðinni. Síðan tók hvölum að fjölga og það var fyrst og fremst hnúfubakurinn sem var í loðnunni. Um eða fyrir 1990 tók hnúfubakurinn að fylgja loðnugöngunni hvert ár og sífellt fjölgaði hvölunum. Það var fyrst á síðustu vertíð að hvalurinn fylgdi ekki göngunni í eins miklum mæli og áður því það var nóg af loðnu fyrir norðan land og þar hélt hann sig. Þessi fjölgun hvala hefur oft skapað mikil vandræði við loðnuveiðarnar. Það er ekkert grín að fá hnúfubak í nótina. Staðreyndin er sú að þegar ég byrjaði til sjós sáust hvalir einungis á hafi úti en nú eru þeir hvarvetna. Mér líst afar illa á blikuna ef þróunin heldur áfram eins og hún hefur verið og áhrif þessarar fjölgunar hvala á loðnustofninn hlýtur að vera hrikaleg.“

Geir Zoëga, skipstjóri á Polar Amaroq:

„Hvölum virðist fjölga ár frá ári og þeir eru alls ekki að forðast veiðiskipin; þeir elta okkur hvert sem við förum á loðnumiðunum. Fyrir norðan land á síðustu loðnuvertíð var óhugnanlega mikið af hnúfubak. Þegar horft var yfir hafflötinn var engu líkara en maður væri staddur á miðju hverasvæði því hvalablástur var út um allt. Á loðnuveiðunum er auðvitað reynt að forðast hvalinn þegar kastað er en því miður reynist það oft ekki hægt. Það er algengt að menn fái hval í nótina og ég þekki dæmi um að allt upp í fimm hnúfubakar hafi verið í nótinni samtímis. Allir hljóta að gera sér grein fyrir hvernig veiðarfærið lítur út eftir slík ósköp. Það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af fjölgun hvalanna, en ég hef líka velt fyrir mér hvort ekki sé mögulegt að merkja 100-150 hnúfubaka og fylgjast með ferðum þeirra í þeim tilgangi að láta þá vísa okkur á loðnuna.“