Endurnýjun íslenskra útgerðarfyrirtækja á fiskiskipaflota sínum er af skipuleggjendum talin ein megin skýring þess að fyrirtæki frá öllum heimshornum sýna Íslensku sjávarútvegssýningunni – IceFish – meiri áhuga nú en oftast áður. Þegar hafa fyrirtæki frá átján þjóðlöndum tilkynnt um þátttöku sína á sýningunni.

Sýningarstjórinn, Marianne Rasmussen Coulling, segir að inn á borð skipuleggjanda sýningarinnar berist daglega fyrirspurnir, og nú þegar hefur 90% af sýningarrýminu í Smáranum í Kópavogi verið ráðstafað þó ennþá séu tæpir tveir mánuðir í opnun – en sýningin er haldin dagana 13. - 15. september.

„Við hlökkum sérstaklega til haustsins, enda verður hægt að kynna sér fjöldann allan af nýjungum er tengjast greininni,“ segir Marianne en á sýningunni er fjallað um allar hliðar sjávarútvegsins, allt frá veiðum og fiskileit til vinnslu og pökkunar, markaðssetningar og dreifingar á fullunnum afurðum.

1984
Íslenska sjávarútvegssýningin á rætur sínar að rekja til ársins 1984 og hefur meira en tvöfaldast að umfangi síðan þá. IceFish er haldin þriðja hvert ár að beiðni sýnenda en það tryggir að nýjar vörur og þjónusta eru kynntar á sýningunni sem hefur sannað sig sem mikilvægur viðburður á heimsvísu hvað sjávarútveg varðar, er mat aðstandenda. Sýningin nýtur stuðnings Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssambands smábátaeigenda.

Aðsókn sýningarinnar árið 2014 óx um 12% miðað við sýninguna 2011, og alls sóttu hana 15.219 gestir, þar með taldir hópar frá Austurlöndum fjær, Norður- og Suður-Ameríku og Afríku. Rúmlega 500 sýnendur komu frá fimm heimsálfum. Nýir sýnendur komu þá frá Kína, Þýskalandi, Japan, Tyrklandi og Bandaríkjunum.

Nú fjölgar erlendum sýnendum um rúm 40% á milli sýninga. Má nefna að danski þjóðarbásinn verður tvöfalt stærri en síðast og sá norski 50% stærri. Þá eru bæði Færeyjar og Bretar með þjóðarbása eins og fyrri ár.

Ný erlend fyrirtæki sem sýna í fyrsta sinn eru meðal annars frá Spáni, Tyrklandi, Bandaríkjunum, Belgíu, Perú og Singapore.

Nýjungar og ráðstefna
Ýmsar nýjungar verða teknar upp á sýningunni nú og aðstaða gesta bætt enn; sérstakt IceFish app fyrir snjallsíma var hannað til auðvelda gestum að feta sig í gegnum sýninguna, svo dæmi sé nefnt.

Auk sýningarinnar sjálfrar verða Íslensku sjávarútvegsverðlaunin veitt í sjöunda sinn ásamt því að haldin verður önnur Icefish-ráðstefnan. Þema ráðstefnunnar er „Fiskúrgangur skilar hagnaði“, sem kristallast í hugarfarsbreytingu á Íslandi hvað varðar meðferð og nýtingu sjávarfangs á síðustu árum.

Sjávarfangsráðstefnan World Seafood Congress er haldin í dagana á undan sýningunni, og er gert ráð fyrir að fjöldi þeirra sem tengjast greininni á alþjóða vettvangi og hana sækja, verði einnig viðstaddir opnunarathöfn IceFish 2017.

Fréttin birtist í nýjustu Fiskifréttum 27. júlí

[email protected]