Barði NK er að landa síld í Neskaupstað en hann kom með 1.170 tonn og hófst vinnsla úr honum í gærmorgun. Þegar vinnsla á síldinni úr Barða lýkur verður fiskiðjuverið þrifið hátt og lágt og síðan gefið helgarfrí. Gert er ráð fyrir að Vilhelm Þorsteinsson EA komi síðan með síld á mánudagsmorgun.
Nú líður að lokum veiða á norsk-íslenskri síld og þegar þeim lýkur munu veiðar á íslenskri sumargotssíld hefjast. Fyrsti farmurinn af íslenskri sumargotssíld barst til Neskaupstaðar 28. október í fyrra. Auk veiða á íslenskri sumargotssíld munu uppsjávarveiðiskipin sinna kolmunnaveiðum og Beitir NK er á kolmunnamiðunum í Rósagarðinum núna. Börkur NK mun þó halda til Danmerkur þar sem hann fer í slipp.
Theodór Haraldsson, skipstjóri á Barða, segir að vel hafi gengið að ná í síldina sem nú er verið að vinna. “Það var allt eins og best verður á kosið – stutt að fara, mokveiði og blíðuveður. Við fengum aflann í fimm stuttum holum. Það var einungis dregið í einn til tvo tíma og aflinn var á bilinu 180-300 tonn. Það var reynt að fá ekki of mikið. Við vorum að veiðum um 30 mílur út af Dalatanga. Það má alveg kalla þetta lúxusveiðar,” segir Theodór.