Faxi RE var í gærkvöldi á leið til hafnar á Akranesi með um 700 tonn af loðnu sem fengust á rúmum sólarhring út af Svörtuloftum skammt vestur af Snæfellsnesi. Þar með er loðnukvóta HB Granda náð á þessari vertíð.
Að sögn Alberts Sveinssonar, skipstjóra á Faxa, þurfti ekki færri en 15-16 köst til að ná þessum afla.
,,Við vorum komnir á miðin í gærmorgun og það er óhætt að segja að það hafi töluvert haft fyrir þessum afla. Í sumum köstunum var aflinn enginn en mest fengum við um 160 tonn í kasti. Þetta var mest hængur og hrygnd loðna en ekkert varð vart við hrognafulla loðnu,“ segir Albert í samtali á heimasíðu HB Granda . Hann á von á því að með þessum síðasta túr Faxa sé loðnuvertíðinni formlega lokið.
Faxi var eina loðnuskipið á miðunum í dag og ekki vitað til þess að önnur séu á leiðinni.
HB Grandi gerði út þrjú skip, Faxa, Ingunni AK og Lundey NS, á loðnuveiðar framan af vertíðinni í vetur en eftir að aukið var við kvótann bættist Víkingur AK í hópinn.
Nú tekur við kærkomið páskafrí en að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, forstjóra HB Granda, verður síðan hugað að kolmunnaveiðum í byrjun aprílmánaðar. Ef að líkum lætur þá ætti kolmunninn þá að vera genginn norður í færeysku lögsöguna.