Samið hefur verið um smíði á fullkomnasta og nútímalegasta línu- og netaskipi Norðmanna. Tvær rótgrónar útgerðir hafa sameinast og láta nú smíða þetta skip fyrir sig og kalla það skip framtíðarinnar.
Nýja skipið verður 58 metrar að lengd og 13,4 metrar á breidd. Hægt verður að frysta 55 tonn á sólarhring og lestarrými er fyrir 500 tonn. Íbúðir eru fyrir 24 menn. Skipið verður afhent vorið 2015.
Skipið verður útbúið öllum nýjustu tækjum og mikil áhersla lögð á gæði afurða, umhverfisvænar veiðar og góðan aðbúnað fyrir áhöfn. Línan verður dregin í gegnum brunn í botni skipsins. Að auki verður hægt að draga netin í gegnum brunninn sem er alger nýjung.
Öll bestu þægindi verða um borð fyrir áhöfn. Þar má nefna kvikmyndasal, trimmsal, sólbekki og gufubað. Þá er setustofa í „turnherbergi“ ofan á brúnni. Þar geta menn setið og slappað af á síðkvöldum og notið þess að horfa á miðnætursólina.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.