Vísindamenn víða um heim eru farnir að nota nýja greiningartækni sem gerir þeim kleift að sjá ummerki eftir lífverur í vatnssýnum teknum úr hafinu.
Nýlega skýrðu Fiskifréttir frá því að í hinum árlega sumarleiðangri Árna Friðrikssonar hafi vísindamenn Hafrannsóknarstofnunar í fyrsta sinn tekið sýni úr hafinu í þeim tilgangi að finna þar ummerki eftir lífverur með erfðaefnisgreiningu.
Víðar eru vísindamenn farnir að beita þessari aðferð.
Sjávarlíffræðingar við Norska sjávarútvegsháskólann (UiT) skýrðu meðal annars frá því að í sýnum teknum úr sjónum við kóralrif við Nýju-Kaledóníu í sunnanverðu Kyrrahafi hafi fundist ummerki um nokkrar hákarlategundir, sem ekki var vitað til að væru á þeim slóðum. Grein um þær rannsóknirnar var birt í tímaritinu Science Advancees í maí.
Byltingarkennt
Rannsóknir á umhverfis-dna, erfðaefni í umhverfinu, virðast ætla að verða byltingarkenndar. Með þeim má greina hvaða tegundir lífvera hafa verið á ferðinni í umhverfinu, til dæmis hvaða fisktegundir hafa verið á hvaða slóðum.
Þessi aðferð er hraðvirk og áreiðanleg. Snemma á síðasta ári skýrðu japanskir vísindamenn frá því að á aðeins einum degi hafi þeim tekist að greina 128 tegundir í sýnum sem tekin voru úr Maizuru-flóa. Þetta voru 60 prósent allra þeirra tegunda sem vísindamönnum hafði tekist að finna með hefðbundnum aðferðum á 14 ára tímabili.
Norsku vísindamennirnir og félagar þeirra tóku 22 sýni við Nýju-Kaledóníu og fundu þar merki um þrettán hákarlategundir. Á þessu svæði höfðu áður einungis fundist tíu hákarlategundir með þrjú þúsund köfunarferðum og 400 myndbandsupptökum.
Sumar tegundanna sem fundust með erfðaefnisgreiningu úr sjávarsýnum voru taldar horfnar af þessum slóðum, þótt vitað væri að þær hefðu sést þarna áður. Þessi aðgerð opnar mönnum því nýja sýn á líffræðilegra fjölbreytni í hafinu.
Erfðaefni tegundanna fannst í ýmsum efnum sem þær skilja eftir sig á ferðum sínum um hafið, svo sem í húðfrumum, blóði og saur.
Minnir á lögguþætti
Þessar aðferðir er hægt að nota til að fá mun betri mynd en hingað til hefur verið möguleg af því hvar fiskar og aðrar lífverur halda sig í hafinu. Kathrine Tveiterås, kennari við UiT, skrifar grein um þá möguleika sem felast í þessu í norska Fiskeribladet 30. maí.
„Nýjar aðferðir gera okkur kleift að greina samtímis milljónir af DNA-sýnum,“ skrifar hún. „Það þýðir að með því að greina eitt einfalt vatnssýni getur maður gert grein fyrir öllum þeim lífverum sem hafa komist í snertingu við vatnið og reiknað út fjölda þeirra.
Hún segir að greining á umhverfis-DNA geti til dæmist komið að góðu gagni við stjórn fiskveiða og fiskeldis. Vísindamenn við UiT hafi sem dæmi nýverið sýnt fram á að hægt sé að greina laxalús, paramöbur og eiturþörunga með þessum aðferðum. Ef reglulega eru tekin sýni úr hafinu þá er hægt að koma auga á sjúkdóma löngu áður en þeir uppgötvast með hefðbundnum aðferðum.
Ennfremur verði hægt að fá mikilvægar upplýsingar um það „hvernig sjúkdómar og sníkjudýr dreifast í vatni og botnfalli, og hvaða umhverfisaðstæður ýta undir eða draga úr dreifingunni.“
Hún segir í grein sinni þessar aðferðir óneitanlega minna á DNA-greiningar í lögregluþáttum í sjónvarpi, en til þess að þær nýtist almennilega þurfi gott samstarf milli vísindamanna, stjórnvalda og útgerðarinnar.