Gróft áætlað skila veiðiheimildir Íslendinga samkvæmt Smugusamningnum að minnsta kosti tvöfalt meiri útflutningsverðmætum en þær veiðiheimildir sem við látum í staðinn miðað við stöðuna í dag. Þetta kemur fram í samantekt Fiskifrétta.
Ætla má að útflutningsverðmæti þorsksins sem íslensk skip veiða í Barentshafi án endurgjalds nemi röskum fimm milljörðum króna. Á móti fá Rússar engar veiðiheimildir við Ísland en Norðmenn fá loðnu og botnfisk sem varla nær helmingi þessara aflaverðmæta við bestu aðstæður.
Norskir útvegsmenn hafa krafist þess að norsk stjórnvöld segi samningnum upp vegna þess hve óhagstæður hann sé Norðmönnum en norsk stjórnvöld hafa ekki viljað hrófla við honum.
Kolbeinn Árnason framkvæmdastjóri LÍÚ bendir á í samtali við Fiskifréttir að ekki sé rétt að líta svo á að samningurinn eigi að koma út á jöfnu enda hafi það ekki verið grundvöllur hans í upphafi. Sem kunnugt er var samningurinn gerður til þess að binda enda á veiðar Íslendinga á alþjóðlega hafsvæðinu í Smugunni.
Sjá nánar umfjöllun um Smugusamninginn í nýjustu Fiskifréttum.