Birgir Össurarson, sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood, var einn þeirra sem sagði frá sinni reynslu í sölumálum á Sjávarútvegsráðstefnunni sem nú stendur í Hörpu.
Birgir, sem hefur starfað í greininni í áratugi, fjallaði að Birgir fjallaði að mestu um reynsluna af markaðssetningu á bleikju og laxi til Norður Ameríku að því er kemur fram á vefsíðu Samherja sem segir frá erindi Birgis.
„Fyrst þarf auðvitað að sannfæra viðskiptavininn um ágæti vörunnar og við búum svo vel að framleiða hágæða fiskafurðir fyrir kröfuharða viðskiptavini. Til að byggja upp stöðugleika þarf reglulegt og áreiðanlegt framboð af afurðum, við þurfum sem sagt að tryggja okkar kaupendum fisk alla daga ársins. Stöðugt framboð afurða 365 daga ársins er í raun stór áskorun sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir,“ sagði Birgir.
Áskorun í fjörunni á Hauganesi
Þá sagði Birgir frá áralöngu viðskiptasambandi við verslanakeðjuna Whole Food Market í Bandaríkjunum varðandi sölu á laxi og bleikju. Reglulega kæmu hingað hópar frá Whole Food til þess að kynna sér framleiðsluna og þá væri tækifærið notað til að treysta sambandið enn frekar.
„Ég minnist þess til dæmis þegar við vorum eitt árið með hóp frá Whole Food í Eyjafirði. Eftir langan vinnudag var ákveðið að fara með hópinn í heitu pottana í fjörunni á Hauganesi, aðgöngumiðinn í pottana var sagður að fyrst þyrfti að skutla sér í ískalt Atlantshafið. Ég var nú ekki sá vinsælasti á staðnum eftir þessa tilkynningu en gestirnir tala enn um þessa upplifun með bros á vör. Þetta kennir okkur að hlutirnir þurfa ekki alltaf að vera flóknir og þegar við hittumst er þessi samvera á Hauganesi gjarnan rifjuð upp,“ sagði Birgir.
Nánari umfjöllun um erindi Birgis Össurarsonar er á vef Samherja.