Samherji greinir frá því að sameiginleg skerðing fiskveiðiheimilda fyrirtækisins og Útgerðarfélags Akureyringa nemi nærri tveggja mánaða vinnslu. Á yfirstandandi fiskveiðiári verði því mikil áskorun að halda úti fullri starfsemi í fiskvinnsluhúsum félaganna.
Mest munar um skerðingu í þorski og gullkarfa, en miðað við fiskveiðiárið 2020/21 hafi veiðiheimildir félaganna í þorski dregist saman um nærri fimmtung, eða 3.800 tonn.
„Allra leiða verður leitað til að bregðast við skertum veiðiheimildum, bæði til sjós og lands,“ segir á vef Samherja. „Nú þegar hefur togaranum Harðbak EA verið lagt tímabundið. Engum í áhöfn var sagt upp heldur öllum skipverjum boðið pláss á öðrum skipum félaganna.“
„Samtals er skerðing veiðiheimilda Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja á yfirstandi fiskveiðiári í ofangreindum tegundum rúm 1.220 tonn miðað við nýliðið fiskveiðiár. Veiðiheimildir félaganna í þorski á þessu fiskveiðiári dragast saman um 6,3%. Verulegur samdráttur er í gullkarfa og djúpkarfa eða 20 til 21%. Veiðiheimildir í ufsa skerðast sömuleiðis um 8,1%. Á móti kemur að veiðiheimildir í ýsu aukast sem nemur um 47%. Grálúða stendur í stað.
Ef litið er aftur til fiskveiðiársins 2020/2021 blasir enn frekar við hversu mikill samdráttur í veiðiheimildum hefur orðið. Heimildir Útgerðarfélags Akureyringa og Samherja í þorski hafa dregist saman um 3.800 tonn, eða sem nemur um 19%.
Í tonnum talið er skerðing Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa í bolfiski tæp sex þúsund tonn. Til að setja þessar tölur í samhengi má segja að sex þúsund tonn dugi til að halda úti fullri vinnslu í fiskvinnsluhúsunum á Dalvík og Akureyri í um tvo mánuði.“
Nánar má lesa um málið á vef Samherja.