Í meðförum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins var viðmiðun frá síðasta fiskveiðiári fyrir línuívilnun í ýsu skert um 41% - eða um 289 tonn og í steinbít um 74 tonn. Þetta er harðlega gagnrýnt á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.
Þar segir að á síðasta fiskveiðiári voru ætluð 701 tonn til línuívilnunar í ýsu, aðeins átta tonn nýttust ekki. Sama var uppi á teningnum í steinbít nema þar var ekkert skilið eftir af 251 tonna viðmiðun.
LS segir að fastlega var því búist við að tekið yrði tillit til ofangreindra staðreynda þegar viðmiðun var ákveðin í reglugerð fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.
„Það var hins vegar ekki gert og því nauðsynlegt að ráðherra láti til sín taka og tryggi línuívilnun í öllum tegundum til loka fiskveiðiársins,“ segir LS.
Reglugerð um línuívilnun fiskveiðiárið 2020/2021 var breytt alls sjö sinnum. Í nóvember 2020 var viðmiðun í þorski lækkuð úr 1.200 tonnum í 1.050 tonn. LS mótmælti ákvörðuninni og hafði árangur sem erfiði. Viðmiðun var hækkuð í þrepum í 1.386 tonn og tímabilum breytt þannig að ekki kæmi til stöðvunar, að undanskildu tímabilinu frá 20. maí til 3. júní.
Í bréfum LS til ráðherra hafa sjómenn bent á hversu mjög línuívilnun hefði verið skert. Eins var á aðalfundi LS mikil samstaða um að efla línuívilnun. Hún gildi fyrir alla dagróðrabáta minni en 30 brúttótonn sem eru styttri en 12 metrar og hún verði á bilinu 10 - 30%. Jafnframt ályktaði fundurinn að framvegis myndi línuívilnun nefnd umhverfisívilnun.