Komur erlendra skemmtiferðaskipa til Akureyrar og systurhafna á þessu ári voru tæplega 280 og tekjurnar nema 850 milljónum kr. sem létta mjög undir með hafnarframkvæmdum og uppbyggingu innviða, að sögn Péturs Ólafssonar hafnarstjóra á Akureyri. Nýr 150 metra langur viðlegukantur er langt kominn í byggingu sem mun nýtast minni farþegaskipum og þjónustubátum.

Torfunesbryggjan var ónýt

„Nýjasta verkefnið er við Torfunesið í miðbænum. Gamla Torfunesbryggjan er farin og komin ný bryggja. Nú er verið að vinna í þeim framkvæmdum. Þetta verður ferðamannabryggja fyrir minni skemmtiferðaskip og þjónustubáta. Eitt skemmtiferðaskip af minni gerðinni kemst fyrir við nýju bryggjuna hvert sinn. Gamla Torfunesbryggjan var orðin ónýt og mjög brýnt að skipta henni út. Hún var orðin hættuleg og varla nothæf lengur,“ segir Pétur.

Hann segir að almennt sé aðstaðan mjög góð fyrir stærri skemmtiferðaskipin á Akureyri og eiginlega til fyrirmyndar. Sumarið hafi verið óvenju annasamt. Auk þess séu á Akureyri sterkir útgerðaraðilar og miklir flutningar eru til og frá svæðinu. Fjölbreytnin er því talsverð sem rennir fleiri stoðum undir reksturinn.

Pétur Ólafsson hafnarstjóri.
Pétur Ólafsson hafnarstjóri.

280 skipakomur

Mikil aukning var í komu skemmtiferðaskipa á þessu ári og segir Pétur útlit fyrir að fjöldi skipa á næsta ári verði svipaður. 217 skipakomur voru á þessu ári en að auki voru skipakomur 55 í Grímsey, 7 í Hrísey og eitt á Hjalteyri sem eru hafnir í hafnarsamlagi með Akureyri. Með skipunum komu alls um 255 þúsund ferðamenn og hafa þeir aldrei verið fleiri. Tekjur Akureyrarhafnar voru tæpar 850 milljónir króna af komu skemmtiferðaskipanna sem er líka það mesta sem hefur skilað sér í kassann.

Landtengingar fyrir rafmagn

„Skemmtiferðaskipin og tekjurnar frá þeim hafa gjörbreytt framkvæmdagetu hafnarinnar Tekjurnar sem verða til fara að meira eða minna leyti í áframhaldandi uppbyggingu og styrkingu á innviðum. Þar má meðal annars nefna líka landtengingar fyrir rafmagn. Við höfum unnið jafnt og þétt núna í fjögur ár að uppbyggingu landtenginga og erum á lokametrunum með þá uppbyggingu fyrir minni skipin og verður staðan þá sambærileg við það sem er í Reykjavík og Hafnarfirði,“ segir Pétur.

Stór fiskiskipahöfn

Akureyrarhöfn er ein af stærri fiskiskipahöfnum landsins. Þar er landað að jafnaði um 20 þúsund tonnum á ári og mestmegnis bolfiski. Mestmegnis kemur aflinn frá skipum Samherja og ÚA en einnig hafa aðkomubátar landað talsverðu af grálúðu. Pétur segir að þessar landanir séu tiltölulega föst stærð og breytist lítið milli ára. Stefnt er að því endurbyggja bryggju sem heitir Austurkantur og jafnvel lengja hann lítið eitt. Það muni bæta það svæði verulega fyrir fiskiskipaflotann. Áætlað er að hefja þær framkvæmdir eftir um það bil tvö ár.