„Annað árið í röð stórskaða stjórnvöld hagsmuni minna félagsmanna, sveitarfélagsins sem og möguleika þjóðarbúsins á því að skapa alvöru gjaldeyristekjur með geðræðislegum vinnubrögðum við veitingu á leyfi til hvalveiða,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í nýjum pistli á Facebook.

Pistilinn skrifar Vilhjálmur í tilefni af ákvörðun Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra um heimild til veiða á langreyði.

„Það er með algjörum ólíkindum að matvælaráðneytið (stjórnvöld) skuli komast upp með svona stjórnsýsluvinnubrögð þar sem lög um hvalveiðar sem og 75 gr. stjórnarskrárinnar eru fótum troðinn,“ skrifar Vilhjálmur undir yfirskriftinni Skemmdarverk og skattgreiðendur borga!

Ráðherra eyðilagði síðustu vertíð

„Ég vil minna á að fyrir akkúrat einu ári þá tókst þáverandi matvælaráðherra að eyðileggja vertíðina með því að stöðva veiðarnar nánast sama dag og þær áttu að hefjast. En umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að sú stjórnsýsluákvörðun hafi verið fullkomlega ólögleg og að ríkissjóður sé skaðabótaskyldur gagnvart Hval enda hefur ríkislögmanni verið falið að leita sátta við forsvarsmenn Hvals,“ heldur Vilhjálmur áfram.

Grátbrosleg upprifjun á fundi

„Verkalýðsfélag Akraness hélt fyrir ári síðan fund hér á Akranesi þar sem þessi kolólöglega stjórnsýsluákvörðun var til umræðu. Rétt er að rifja upp að það var húsfyllir eða yfir 400 manns sem komu á þann fund en á fundinn kom einnig matvælaráðherra ásamt þingmönnum kjördæmisins.

Það er grátbroslegt að rifja þennan fund upp en á honum voru þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins með kassann úti og sögðu að þessi vinnubrögð væru ólögleg og skoruðu á matvælaráðherrann að draga ákvörðun sína til baka.“

Ábyrgð samstarfsflokkanna gríðarlega mikil

„Ég vil einnig rifja upp að ég sagði í mínu erindi að 99% líkur væru á að ákvörðun matvælaráðherra væri ólögleg og myndi skapa ríkissjóði skaðabótaskyldu og núna hefur það verið staðfest af umboðsmanni Alþingis enda ríkislögmanni falið að ná sátt við forsvarsmenn Hvals. Ég sagði í mínu erindi að bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn gætu ekki horft aðgerðalausir á þessa ólöglegu ákvörðun matvælaráðneytisins enda væri umræddur ráðherra í umboði samstarfsflokkanna og ábyrgð þeirra væri gríðarlega mikil. Ég spurði hvort Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ætluðu að láta skattgreiðendur greiða milljarða í skaðabætur í ljósi þess að flokkarnir vissu að um ólöglega ákvörðun var að ræða.“

Vantaði ekki kjaftinn á þingmenn

„Það vantaði ekki „kjaftinn“ á þingmenn kjördæmisins á fundinum í fyrra en því miður var og er engin innistæða fyrir öllum þeim stóru orðum sem þeir létu falla á þeim fundi um að þessi ólöglega ákvörðun myndi ekki mega standa óbreytt.

Þetta var í fyrra og enn og aftur ætlar matvælaráðherra að takast að eyðaleggja komandi vertíð, enda er það þyngra en tárum taki að stjórnvöld (matvælaráðuneytið) skuli með klækjum og seinagangi koma í veg fyrir að Hvalur sjái sér fært að fara á hvalveiðar.“

Hvalur er fallinn á tíma

„Matvælaráðuneytið hefur dregið lappirnar frá því í janúar með að svara Hval hvort leyfið verði gefið út og nú er svo komið að Hvalur er fallinn á tíma enda þarf fyrirtækið að panta aðföng og búnað erlendis frá sem og ráða til sín starfsfólk.

Það er með algjörum ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig við að standa vörð um „frelsi“ skuli ekki verja eina af mikilvægustu greinunum í stjórnarskránni sem er atvinnufrelsi fyrirtækja og einstaklinga. Þögn Framsóknarflokksins hvað hvalveiðar varðar er einnig ærandi, en ég er reyndar hættur að átta mig á fyrir hvað sá flokkur stendur.“

Ömurlegt að hlusta á forsætisráðherra og fjármálaráðherra

„Það var ömurlegt að hlusta á forsætisráðherra og fjármálaráðherra nánast leggja blessun sína yfir þessa ákvörðun matvælaráðherra í fréttum í gær og það kom einnig fram hjá matvælaráðherra að enginn ráðherra hafi gert athugsemd við hennar ákvörðun. Ákvörðun sem er þannig úr garði gerð að nánast útilokað sé fyrir fyrirtækið að hefja hvalveiðar sökum stjórnsýsluklækja sem ráðherrann beitti við að tefja málið.“

Það er hins vegar rétt að geta þess að einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur barist af krafti fyrir þessu mikilvæga starfsleyfi okkar Vestlendinga en það er Jón Gunnarsson en það er greinilegt að hann má sín lítils innan þingflokks Sjálfstæðismanna þó með örfáum undantekningum.“

Gefi Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum langt frí

„Það er ljóst að verið er að hafa gríðarlega tekjumöguleika af þeim 150 manns sem myndu alla jafna starfa ef hvalveiðar yrðu heimilaðar að ógleymdu tuga ef ekki hundruð milljóna tekjutapi Akraneskaupstaðar og nærsveita.

Að hunsa gjaldeyrisöflun upp á 3 milljarða er með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar en því miður er allt sem bendir til þess að Hvalur sé fallinn á tíma með að fá útgefið leyfi. Öll fyrirtæki þurfa fyrirsjáanleika til að geta gert ráðstafanir og matvælaráðuneytið hefur séð til þess að sjá fyrirsjáanleiki er enginn!

Ég held að fyrir okkur Akurnesinga og nærsveitunga sé orðið ljóst að mikilvægt sé að gefa Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum langt og gott frí en við munum væntanlega ekki þurfa að hafa áhyggjur af skemmdarverkum Vinstri grænna á komandi árum enda mælist flokkurinn eins og Egils Gull léttöl,“ segir Vilhjálmur að endingu.