Skemmtiferðaskipið Scarlet Lady frá Virgin Voyages kom til Reykjavíkur og Faxaflóahafna í fyrsta skipti 5. ágúst síðastliðinn. Við það tilefni afgreiddi Skeljungur einnig í fyrsta skipti hreint lífeldsneyti til skemmtiferðaskips. Um tímamótaviðburð er að ræða þar sem enn sem komið er er erfitt fyrir skemmtiferðaskip að nálgast hreint lífeldsneyti á heimsvísu – en þó ekki á Íslandi þar sem Skeljungur afgreiddi um hundrað tonn í fyrradag. Afgreiðslan fór fram með olíubílum Skeljungs sem einnig eru eingöngu knúnir af lífdísel, því sama og fór um borð í Scarlet Lady.

Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs, var á meðal gesta um borð í Scarlet Lady 5. ágúst þegar skipst var á plöttum eins og hefð er fyrir þegar skip kemur í nýja höfn.

Jill Stoneberg, forstöðumaður samfélagsmála og sjálfbærni hjá Virgin Voyage, og Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs.
Jill Stoneberg, forstöðumaður samfélagsmála og sjálfbærni hjá Virgin Voyage, og Þórður Guðjónsson, forstjóri Skeljungs.

„Þetta er í fyrsta sinn sem lífeldsneyti er selt um borð í skemmtiferðaskip á Íslandi. Forsagan er sú að ég og Unnur Elva Arnardóttir, forstöðumaður hjá Skeljungi, hittum Jill Stoneberg, forstöðumann samfélagsmála og sjálfbærni hjá Virgin Voyages, í Miami. Við sögðum henni að við gætum boðið upp á hreint lífeldsneyti á Íslandi, sem kom henni talsvert á óvart. Það hefur reynst erfitt að fá slíkt eldsneyti í erlendum höfnum. Í kjölfarið var ákveðið að afgreiða lífeldsneyti um borð í Scarlet Lady þegar skipið kæmi til Reykjavíkur og það er meðal annars ástæðan fyrir því að við erum hér í dag.“ segir Þórður.

Afgreiðsla lífeldsneytis mikilvæg
Eldsneytið sem Skeljungur býður hér á landi kemur frá finnska fyrirtækinu Neste og er hágæða lífeldsneyti (HVO/ Hydrotreated Vegetable Oil), framleitt úr 100% endurnýjanlegum hráefnum eins og matarolíu og dýrafitu. Með lífeldsneytinu er hægt að draga úr gróðurhúsalofttegundum um 75%-95% miðað við sambærilegt jarðefnaeldsneyti. Samanborið við skipaolíu (e. Marine Grade Oil) er dregið úr gróðurhúsalofttegundum um 90%.

„Virgin Voyages hafa skuldbundið sig til að ná núllosun fyrir árið 2050. Sú vegferð er þegar hafin með notkun á lífeldsneyti sem unnið er úr úrgangi í bland við það eldsneyti sem við notum að jafnaði. Við erum mjög ánægð með að geta tekið lífeldsneyti á Íslandi og vonum að fleiri hafnir muni geta boðið lífeldsneyti fyrir skemmtiferðaskip í framtíðinni,” segir Jill Stoneberg.

Skemmtiferðaskipageirinn hefur sett sér það markmið að ná kolefnishlutleysi innan 25 ára, og eru ný og nýleg skip hönnuð með það að leiðarljósi. Scarlet Lady er slíkt skip og fór í sína jómfrúarferð 14. febrúar 2020.

Skipið er með 1.408 farþegakáetur og 813 káetur fyrir áhöfn, sem gerir hámarksfjölda um borð um 4.400 manns. Við heimsókn skipsins til Reykjavíkur var það nánast fullbókað með 2.770 skiptifarþega. Það þýðir að allir farþegar fóru frá borði til að dvelja á hótelum í Reykjavík áður en þeir flugu úr landi og nýir farþegar komu í þeirra stað um borð.

Scarlet Lady er knúið áfram af fjórum Wärtsilä 46F dísilvélum sem skila samtals 64.000 hestöflum (48 megavöttum) og geta náð allt að 22 hnúta hámarkshraða (um 41 km/klst).

Frá árinu 2022 hefur Virgin Voyages unnið markvisst að því að auka hlutdeild lífeldsneytis í sínum flota. Vélar skipsins eru þannig hannaðar til að geta brennt fjölbreyttum eldsneytistegundum, þar á meðal lífeldsneyti.