„Það er okkur mikið gleðiefni að tilkynna ykkur að í gær barst Samherja afrit af tilkynningu skattrannsóknarstjóra til embættis sérstaks saksóknara þar sem fram kemur að eftir skoðun á málinu hafi skattrannsóknarstjóri ekki séð ástæðu til nokkurra aðgerða af sinni hálfu,“ segir í bréfi sem forsvarsmenn Samherja hafa sent starfsfólki sínu.
Þar er minnt á að embætti sérstaks saksóknara hafi áður fellt niður mál tengd Samherja sem uppruna sinn átti í húsleit og öðru aðgerðum Seðlabankans gegn fyrirtækinu. Þá hafi umboðsmaður Alþingis tekið undir margt af því sem Samherji hafi gagnrýnt varðandi stjórnsýslu Seðlabankans og bankaráð samþykkt að gerð verði óháð úttekt á stjórnsýslu bankans við framkvæmd gjaldeyriseftirlits og gjaldeyrisrannsókna.
„Við erum því mjög ánægðir með niðurstöðuna enda er hún í samræmi við það sem við höfum alltaf sagt, að starfsfólk Samherja hafi unnið vel og eftir bestu samvisku þrátt fyrir erfiðar kringumstæður hin síðari ár. Aldrei hefur verið farið jafn nákvæmlega og ítarlega í gegnum starfsemi nokkurs fyrirtækis eins og í þessu máli,“ segir í bréfinu.
Sjá bréfið í heild á vef Samherja ásamt meðfylgjandi mynd: Samherjafrændur "hafa ekkert að fela."
© Aðsend mynd (AÐSEND)