Miðað við þarfir sjávarútvegsins má segja að starfsemi Hafrannsóknastofnunar sé komin í öngstræti. Þetta er mat Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og kemur orðrétt fram í umsögn samtakanna þegar frumvarp að fjárlögum ársins 2018 lá fyrir. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, heldur þar á penna.

Þetta sjónarmið sem kemur fram í umsögn samtakanna hefur verið margendurtekið í ræðu og riti á síðastliðnum árum. Að ekki sé búið að hafrannsóknum við Ísland í neinu samhengi við samfélagslegt mikilvægi þeirra. Að þrátt fyrir allt tal um hina verðmætu auðlind sé útilokað fyrir Hafrannsóknastofnun að vinna að þeim rannsóknum sem eru aðkallandi – og hefur Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og forveri hans, Jóhann Sigurjónsson, bent á að fjárframlögin hrökkvi ekki til þess að ná utan um grunnrannsóknir, sem nýting auðlindarinnar byggir þrátt fyrir allt á.

Skammsýni

Ekki þarf að leita lengra en tvö ár aftur í tímann til að finna sérstaka umræðu á Alþingi þar sem þingheimur allur var sammála um að ástæða væri til að stórefla hafrannsóknir við Ísland í ljósi þeirra gríðarlegu þjóðhagslegu hagsmuna sem eru undir. Bæði ætti það við um mælingar á einstökum stofnum og undirstöðurannsóknir. Þá voru það áhyggjur af loðnugöngum og loðnuveiði sem var kveikja umræðunnar.

Ári síðar, eins og frægt er orðið, þurfti útgerðin sjálf að kosta nokkru til svo hægt væri að ljúka loðnurannsóknum. Eftir loðnumælinguna í samstarfi við útgerðina lagði Hafrannsóknastofnun til að kvóti vertíðarinnar yrði tæp 300.000 tonn. Áður hafði verið gefinn út 57.000 tonna kvóti þannig að um rúmlega fimmföldun var að ræða á milli mælinga.

Í samtali við Fiskiréttir bætir Heiðrún Lind við, þessu til frekari skýringa, að „fá dæmi eru skýrari en þau þegar menn hafa viljað spara sem nemur kannski hundrað milljónum króna og fara þannig á mis við góða möguleika á jafnvel tugmilljarða króna verðmætasköpun af loðnuveiðum. En þótt dæmin á öðrum sviðum séu e.t.v. ekki jafn skýr og í loðnunni, og komi fram á lengri tíma, þá eru þau samt sama eðlis og byggjast á sömu skammsýninni. Því er ekki síður bæði brýnt og mikilvægt að efla hafrannsóknir á öðrum sviðum.“

Tekið var tillit til þessa í nýjum fjárlögum með aukafjárveitingu til Hafrannsóknastofnunar, sérstaklega eyrnamerktar loðnunni. Aukið úthald í vöktun verður bæði nú í janúar og febrúar sem byggir á þessari fjárveitingu, en einnig í september komandi.

Breytingar sem aldrei fyrr

Ef vikið er aftur að skrifum Heiðrúnar Lindar segir hún að hafa beri í huga að nýting sjávarauðlindarinnar og tækifæri til sölu afurða á bestu útflutningsmörkuðum geri miklar kröfur til hafrannsókna og vísinda í heimi nútímans.

„Fjárvöntun og mannekla hefur það sem af er þessari öld leitt til viðvarandi samdráttar í rannsóknum á sviði vistfræði og haffræði og skyldra greina og vöktun nytjastofna hefur eðlilega haft forgang að fjármunum. Á sama tímabili hafa umhverfisaðstæður á Íslandsmiðum breyst með þeim hætti að streymi hlýsjávar kringum landið hefur eflst hlutfallslega og nú teygir hlýsjávarsvæðið sig langt norður og vestur fyrir landið þar sem áður var kaldari sjór. Þessi breyting hefur haft víðtækar afleiðingar fyrir lífríkið, t.d. varðandi útbreiðslu loðnu, ýsu og fleiri tegunda til norðurs, auk þess sem þekkt sambönd sem áður höfðu verið metin þarfnast nú endurmats við breyttar aðstæður,“ skrifar Heiðrún Lind.

Alþjóðlegar kröfur

Breytingar innan lögsögunnar eru eitt en einnig sú grundvallarbreytingar að á sama tíma hafa stórir stofnar uppsjávarfisks gengið inn á Íslandsmið — síld, kolmunni og makríll.

Heiðrún Lind nefnir að þessi óvænti búhnykkur eykur kröfur um verulega auknar rannsóknir af ýmsum ástæðum; bæði tengdum samningum um hlut Íslands úr viðkomandi stofnum og þörfum vegna stofnmats og rannsókna á áhrifum þessara fiska á fæðuvefinn og vistkerfin á svæðinu — sem aftur gerir auknar kröfur um dýrt úthald rannsóknarskipa, skrifar hún.

„Til viðbótar má nefna alþjóðlegar kröfur almennt um varúðarleið við stjórn fiskveiða og vistkerfisnálgun við stjórn fiskveiða, en á báðum þessum sviðum vantar talsvert upp á að brýnni rannsókna- og kynningarþörf sé mætt. Jafnframt ber að nefna að rannsóknir á nýtingu fjölmargra minni fiskistofna sem hafa ekki verið stundaðar með ásættanlegum hætti.“

Í óefni stefnir

Í lok umsagnar sinnar segir Heiðrún Lind að til ...viðbótar þessu skal bent á að ekki er seinna vænna að hefja nauðsynlega endurnýjun rannsóknaskipa, en þar stefnir í óefni að óbreyttu.“

Fiskifréttir fjölluðu um endurnýjunarþörf á skipakosti Hafrannsóknastofnunar í ágúst síðastliðinn. Kom fram í viðtali við Sigurð Guðjónsson, forstjóra Hafró, að endurnýja þarf rannsóknaskipið Bjarna Sæmundsson þegar í stað – en nær hálf öld er síðan það var smíðað.

Spurður hversu mikið það takmarkar starfsemi Hafró að hafa ekki nýjasta búnað, nefndi Sigurður sem dæmi að í dag sé kominn mun fullkomnari búnaður til bergmálsmælinga en er í Bjarna í dag, en slíkur búnaður af nýjustu gerð gerir vísindamönnum kleift að mæla stærra svæði í hverjum rannsóknarleiðangri, eða í hverri yfirferð, og svo megi lengi telja.

„Óskaskipið væri svipað stórt eða ívið stærra en Bjarni, sem er hæft til að sinna fjölbreyttum rannsóknum bæði djúpt og grunnt. Það myndi gera allar rannsóknir tryggari, með hagkvæmari rekstri,“ sagði Sigurður.

Bjarni Sæmundsson lagði upp í sinn fyrsta rannsóknarleiðangur í byrjun janúar 1971. Skipið hefur gegnt fjölþættum verkefnum við íslenskar hafrannsóknir en stærstur hefur þar verið hlutur rannsókna á uppsjávar- og botnfiskum, ásamt sjó- og svifrannsóknum, samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun.

Nýsmíði ekki á áætlun

Skipaður var starfshópur árið 2013 til að undirbúa byggingu og fjármögnun nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun. Var málið kynnt á vef atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins á þeim tíma undir fyrirsögninni „Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar við sjónarrönd.“ Samkvæmt skýrslu sem hópurinn skilaði var þá áætlað að nýtt 40-45 metra langt rannsóknaskip myndi kosta um 2,5 milljarða króna og áætlaður afhendingartími slíks skips væri um 20 mánuðir.

Hins vegar er ekki gert ráð fyrir smíði nýs hafrannsóknaskips næstu árin, samkvæmt fimm ára fjármálaáætlun fyrir árin 2018-2022, eins og kom fram í Fiskifréttum í maí síðastliðnum þegar starfsemi Hafrannsóknastofnunar var til umræðu á vettvangi Alþingis.