Frystitogari Brims hf, Skálaberg RE 7 verður seldur til Grænlands á næsta ári. Kaupandi er Artic Prime Fisheries í Qagortog, en Brim á minnihluta í fyrirtækinu. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum í kvöld.
Skipið verður gert út frá Grænlandi með þarlendri og íslenskri áhöfn. Brim keypti togarann fyrir þrjá og hálfan milljarð króna frá Argentínu fyrir rúmu ári. Skálberg RE 7, er eitt fullkomnasta veiðiskip íslenska flotans. Það kom hingað til lands í maí, en hefur legið hér við bryggju í Reykjavík allar götur síðan.
„Þegar við keyptum það, þá höfðum við trú á því innan íslensku lögsögunnar, en núna er ekki rekstrargrundvöllur fyrir þetta skip á Íslandi og það verður selt úr landi á næsta ári,“ sagði Guðmundur í samtali við sjónvarpið.