Skaginn 3X hefur skrifað undir samning við Polar Sea+ LLC, dótturfélag rússneska útgerðarrisans Norebo, um hönnun og framleiðslu á hátæknivæddri, sjálfvirkri vinnslulínu fyrir saltfiskvinnslu.
Vinnslulínuna á að taka í notkun snemma á næsta ári og er hún sérstaklega hönnuð fyrir meðferð fiski og hágæðaframleiðslu á saltfiski sem er ætlaður til útflutnings til Suður-Evrópu, Suður-Ameríku og Afríku.
„Þetta verður stærsta vinnslulína sinnar tegundar í Norður-Atlantshafi. Framleiðslugeta á tilbúnum afturðum verður 50 tonn á dag og unnt verður að framleiða saltfisk fyrir ólíka markaði með lágmarks breytingum á vinnslubúnaði,“ segir Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri Skagans 3X í Rússlandi.
„Polar Sea+ came hafði samband og var að leita að nútímalegri og afkastamikilli saltfiskvinnslu. Viðbrögð okkar voru að hanna vinnsluumhverfi sem leiddi til skilvirks og jafns vinnsluflæðis þar sem gæðin voru í forgrunni,“ bætir Pétur við.
Vinnslulínan samanstendur aðallega af RoteX Supreme Thawing kerfi, pækilblöndunarlínu og snyrtilínu. RoteX Supreme Thawing kerfið býr yfir fullkominni hitastýrigu og uppþýðingu. Kerfið býður einnig upp á nútímalega vinnuaðstöðu, stuðlar að auknu matvælaöryggi, orku- og vatnssparnaði og tryggir lágmarks vökvatap sem leiðir til aukinna verðmæta. Pækilblöndunarlínan er alsjálfvirk og skilar frá sér nákvæmri pækilblöndu til ólíkra vinnslulína innan verksmiðjunnar.
Skaginn 3X hannaði einnig fiskvinnsluver Polar Sea+ LLC sem er ein sú tæknivæddasta við Norður-Atlantshafið. Hún framleiðir ferskar og frystar afurðir af margvíslegu tagi sem fiskiskipafloti Norebo veiðir.
„Við völdum að starfa með Skaganum 3X enn á ný við þetta verkefni. Ástæðan er nýstárlegar framleiðsluvörur þeirra og lausnir sem hafa skilað okkur framúrskarandi gæðum í afurðum fram til þessa,“ segir Vladmir Zagorovsky, framkvæmdastjóri Polar Sea+ LLC.