Skaginn 3X hefur samið um sölu á fjórum lausfrystum til Brasilíu. Söluverðið er um 600 milljónir króna og er þetta stærsti einstaki samningurinn sem fyrirtækið hefur gert um lausfrysta. Reiknað er með að búnaðurinn fari héðan í tuttugu 40 feta gámum í mars og verði settur upp í vor. Þetta kemur fram í frétttilkynningu frá Skaganum 3X.

Reiknað er með að 10-15 manna teymi fari héðan til að setja búnaðinn upp. Kjötvinnslurnar sem frystarnir fara í eru inni í miðri Brasilíu, nálægt Amazon-fljótinu.

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans á Akranesi og 3X Technology á Ísafirði sagði að þeir hefðu selt lausfrysti til Brasilíu fyrir sjö árum. Frystirinn lenti inni í brasilísku fyrirtækjasamsteypunni BRF sem á einnig lausfrysta frá þekktustu framleiðendum í heiminum. BRF er sjöunda stærsta matvælafyrirtæki heimsins með 58 verksmiðjur víða um heim sem flestar eru í kjúklingaiðnaði. Hjá samsteypunni vinna um 100.000 manns.

Íslenski frystirinn bar af

„Þessi gamli frystir okkar hefur reynst afburðavel frá upphafi. Þeir rannsökuðu hann niður í frumeindir og báru saman við aðra lausfrysta frá þekktum keppinautum. Hann sigraði þá alla og þeir ákváðu að kaupa af okkur fjóra nýja lausfrysta sem fara í tvær vinnslur. Það er gott að ná fótfestu í kjúklingaiðnaðinum,“ sagði Ingólfur. Hann sagði að verðið hefði ekki ráðið úrslitum heldur hagkvæmni frystisins og afköst. „Lausfrystarnir okkar eru búnir sérstakri tækni sem er einkaleyfisvarin og er frábrugðin tækni annarra. Þeir þykja sérstaklega hagkvæmir, ódýrir í rekstri og skila betri nýtingu en þekkist í öðrum lausfrystum. Það hjálpaði okkur að sigra alþjóðlega markaðsleiðandi keppinauta. Þessi tækni hentar alveg einstaklega vel til frystingar á kjúklingaafurðum. Við teljum að þessi samningur opni okkur fjölmörg önnur tækifæri enda erum við að semja við mjög öflugt og þekkt fyrirtæki.“ Ingólfur bætti því við að Skaginn og 3X séu örsmá fyrirtæki í samanburði við risastóra keppinautana.

Lausfrystarnir eru um 16 metrar að lengd og fjórir metrar á breidd. Hver frystir afkastar um 3.500 kg af kjúklingabitum á klukkustund.

Átta frystar á skömmum tíma

„Við erum búnir að selja átta lausfrysta á stuttum tíma,“ sagði Ingólfur. Skaginn 3X samdi  m.a. nýlega við Agustson ehf. í Stykkishólmi um lausfrysti af svipaðri gerð og er unnið að smíði hans. Tveir frystar voru nýlega seldir hörpudisksvinnslum á austurströnd Bandaríkjanna. Uppsetningu á þeim seinni af þeim er að ljúka. Nýlega var gengið frá sölu á lausfrysti sem notaður verður við að frysta humar, einnig á austurströnd Bandaríkjanna. Þá var svipaður frystir settur upp í frumskógum Mexíkó í fyrra og er notaður til að frysta tilapia.

Hjá Skaganum vinna um 100 manns og hjá 3X Technology um 50 manns.