Stjórn Skagans 3X hefur ákveðið að leggja niður starfsstöð fyrirtækisins á Ísafirði. Öllum 27 starfsmönnum fyrirtækisins þar hefur verið sagt upp störfum.
„Ákvörðunin er afar þungbær en byggir á umfangsmikilli endurskipulagningu og hefur þegar verið kynnt bæjaryfirvöldum á Ísafirði og verkalýðsfélögum,“ segir í tilkynningu til fjölmiðla.
„Rekstur Skagans 3X hefur verið mjög þungur síðustu misseri og eins og áður hefur komið fram þurfti fyrirtækið að fara í viðamikið endurmat á skuldbindingum og kröfum í kjölfar eigendaskipta. Þá hefur ólga verið á helstu mörkuðum þess síðustu misseri, bæði vegna stríðsátaka sem tengjast Rússlandi og Covid-heimsfaraldursins. Við höfum velt við hverjum steini þar sem þær rekstrar- og markaðslegu forsendur sem lagt var upp með við eigendaskiptin hafa ekki gengið eftir. Niðurstaðan varð sú að samþætta alla framleiðslu á Akranesi,“ er haft eftir Sigsteini Grétarssyni, forstjóra Skagans 3X í tilkynningunni.
Skaginn 3X framleiðir tæki til notkunar í matvælaiðnaði, sérstaklega í tengslum við sjávarútveg.