Stjórn Skagans 3X hefur á­kveðið að leggja niður starfs­stöð fyrir­tækisins á Ísa­firði. Öllum 27 starfs­mönnum fyrir­tækisins þar hefur verið sagt upp störfum.

„Á­kvörðunin er afar þung­bær en byggir á um­fangs­mikilli endur­skipu­lagningu og hefur þegar verið kynnt bæjar­yfir­völdum á Ísa­firði og verka­lýðs­fé­lögum,“ segir í til­kynningu til fjöl­miðla.

„Rekstur Skagans 3X hefur verið mjög þungur síðustu misseri og eins og áður hefur komið fram þurfti fyrir­tækið að fara í viða­mikið endur­mat á skuld­bindingum og kröfum í kjöl­far eig­enda­skipta. Þá hefur ólga verið á helstu mörkuðum þess síðustu misseri, bæði vegna stríðs­á­taka sem tengjast Rúss­landi og Co­vid-heims­far­aldursins. Við höfum velt við hverjum steini þar sem þær rekstrar- og markaðs­legu for­sendur sem lagt var upp með við eig­enda­skiptin hafa ekki gengið eftir. Niður­staðan varð sú að sam­þætta alla fram­leiðslu á Akra­nesi,“ er haft eftir Sig­steini Grétars­syni, for­stjóra Skagans 3X í til­kynningunni.

Skaginn 3X framleiðir tæki til notkunar í matvælaiðnaði, sérstaklega í tengslum við sjávarútveg.