Byggðarráð Skagafjarðar tók í dag undir gagnrýni Drangeyjar - smábátafélags Skagafjarðar, á stöðvun strandveiða.

Tekið var fyrir frekari strandveiðar 11. júlí síðastliðinn þar sem tíu þúsund tonn heildarkvóta greinarinnar í þorski var þá náð.

„Byggðarráð Skagafjarðar tekur undir með Drangey - smábátafélagi Skagafjarðar, að ólíðandi er að veiðitími sé með skyndilegri stöðvun tekinn af strandveiðisjómönnum á Norðurlandi þriðja árið í röð vegna þess að potturinn er búinn áður en verðmætasti fiskurinn kemur norður fyrir land,“ segir í bókun byggðaráðsins sem er að finna í fundargerð ráðsins.

„Það er grundvallaratriði að jafnrétti verði aukið á milli byggðarlaga, tækifæri jöfnuð til að sækja í þann heildarpott sem úthlutað er til strandveiða og takmörkuðum gæðum þannig skipt á réttlátari hátt á milli svæða en nú er. Mikilvægt er að Alþingi endurskoði núverandi fyrirkomulag með framangreint í að markmiði,“ segir einnig í bókuninni.