Dr. Sindri Gíslason forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands segir að erlendis hafi víða verið settar strangar reglur um að flotbryggjur í höfnum séu teknar upp á eins til þriggja ára fresti, þær hreinsaðar og málaðar. Þetta þyki nauðsynlegt til að stöðva eða tefja útbreiðslu framandi tegunda eins og glærmöttuls og annarra skaðvalda sem valdið geta miklu tjóni á innlendu lífríki.

„Glærmöttull fannst fyrst í Straumsvík árið 2007,“ segir Sindri. Ný rannsókn sem unnin var af Náttúrustofu Suðvesturlands og samstarfsaðila sýnir að þessi framandi tegund hefur nú náð fótfestu víða á Suðvesturlandi. Verði ekkert að gert má búast við að hún breiðist hratt út við strendur landsins og ógni þar með mögulega bæði vistkerfum sem og skeldýrarækt og fiskeldi.

„Glærmöttull er meðal þekktustu ágengu framandi tegunda í sjó á heimsvísu. Hann getur haft mikil áhrif, dregið úr líffjölbreytileiki og þéttleika innlendra tegunda. Hann tekur beinlínis yfir.“

Grein Sindra og félaga hans um útbreiðslu og þéttleika glærmöttuls við Íslands er nýkomin út í timaritinu Regional Studies in Marine Science. Höfundar eru þau Joana Micael, Pedro Rodrigues, Halldór Pálmar Halldórsson og Sindri Gíslason.

876 dýr á fermetra

„Útbreiðslan virðist enn sem komið er vera bundin við Suðvesturlandið en miðað við líffræði tegundarinnar ætti hún að geta dreifst norður fyrir land sem er áhyggjuefni. Þéttleikinn sem við sáum hérna Suðvestanlands er gríðarmikill. Mestur var hann í Sandgerði eða 876 dýr á fermetra. Þetta eru rosalegar tölur og líklega er þetta vanmat á fjölda því ungviði voru ekki talin, þannig að við gætum verið að tala um miklu hærri tölur þarna.“ Erlendis hefur mesti þéttleikinn mælst 2000 einstaklingar á fermetra. Sindri telur vel mögulegt að við gætum verið á svipuðu róli og þar.

„Til að setja þetta í samhengi þá má benda á að á Nýfundnalandi í Little Bay Harbour fundust 352 einstaklingar á fermetra í höfnum þar, og það var metið sem neyðarástand. Það var strax ráðlagt að fara í skjótar og umfangsmiklar aðgerðir til að draga úr áhrifum. Hérna erum við með meira en tvöfalt þetta magn. Það eru margar viðvörunarbjöllur að hringja hjá okkur.“

Sindri segir möttuldýr ekki hafa verið rannsökuð mikið hér á landi. Alls eru til um 3000 tegundir möttuldýra í heiminum, en þar af eru 64 sem hafa flust á milli hafsvæða og teljast til framandi tegunda.

Á stærð við pulsu

Glærmöttullinn getur orðið allt að 15 sentímetra langur, eða á stærð við pulsu, en herpir sig saman þegar hann verður fyrir áreiti. Búkurinn er langur og sívalur, hlaupkenndur og gegnsær.

„Hann festir sig helst á hart undirlag, s.s. steina, báta, baujur, belgi og bryggjumannvirki.“ Vaxtarhraðinn er býsna mikill, einn til tveir sentímetrar á mánuði að sögn Sindra.

Útbreiðsla tegundarinnar er mikil. Glærmöttull finnst í norðanverðri Evrópu, beggja vegna Norður- Suður-Ameríku, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Asíu, Indónesíu og Japan.

„Það sem gerir þekktar ágengar framandi tegundir eins og glærmöttulinn svo hæfar er m.a. mikil og/eða tíð fjölgunargeta og mikið umhverfisþol. Glærmöttulinn þolir hitastig alveg frá mínus einnig gráðu upp í 30 gráður, sem er mikið hitaþol. Eins er með seltuna, hann þolir seltu frá 8 og upp í 40, sem er frá því að vera nánast ferskt vatn og upp í fullsaltan sjó. Til að setja þetta í samhengi er selta sjávar við Ísland í kringum 35.“

Hann er svokallaður síari, en það eru dýr sem nærist með því að sía fæðuna úr sjónum. „Hann síar fæðuagnir sem eru mjög litlar, ekki nema 0,5 til 5 míkrón.

Þá segir Sindri lirfur möttuldýra almennt ekki fara mjög langt frá klaki og þangað til þær finna sér álitlegan stað til að setjast að á. Þetta geta verið nokkrir klukkutímar upp í nokkrir dagar. Það fer eftir umhverfisaðstæðum.“Það séu kannski hundrað metrar og allt upp í kílómeter“.

„Þessar tegundir flytjast því ekkert milli heimshluta nema með hjálp mannsins. Á heimsvísu er flutningur aðallega með skipum en einnig sem ásætur á eldisdýrum, möttuldýrin eru þá áföst skeljum eldisdýra án þess að innflytjendur geri sér endilega grein fyrir því flutningnum. En stærsti flutningurinn er á skipum.“

Berst með bátum

Svo þegar hann er kominn á Suðvesturhornið og til Reykjavíkur þá þarf í raun ekki marga báta til að flytja framandi tegundir eins og glærmöttulinn milli landhluta, t.d. norður í land.

„Lífstími þessara dýra er 2-3 ár. Þeir ná kynþroska á nokkrum vikum í réttum aðstæðum. Afkvæmin eru mörg og þeir hrygna árlega, þannig að án öflugra afræningja, þ.e. tegunda sem borða þá, þá getur tegundin í réttum umhverfisaðstæðum náð miklum þéttleika. Þetta eru einmitt allt eiginleikar sem lýsa skæðri framandi tegund. Lífsferillinn getur verið 70 til 80 dagar frá því sæði frjóvgar egg og þangað til kominn er fullorðinn einstaklingur sem er farinn að fjölga sér. Þetta gerist því rosalega hratt.“

Ef allt fer úr böndunum og glærmöttullinn fer að breiðast út þá getur hann farið að hafa áhrif á ýmis konar rækt, bæði í sjókvíum og línurækt. Hann hefur víða um heim haft mikil neikvæð áhrif í fiskeldi s.s. í Kanada.

Sindri nefnir til sögunnar ostru-, kræklinga og hörpudisksrækt. Einnig hefur glærmöttullinn komið illa niður á fiskeldi.

„Í fiskeldi minnkar hann vatnsrennsli í kvíunum, truflar þar með súrefnisskiptin og stofnar heilsu fiskanna í hættu. Svo eykur lífmassi hans auðvitað mjög þyngdina á öllum búnaði hann grær upp af, sem valdið getur bæði skaða og hættu. Mesta þyngd sem hefur verið skráð á fermetra er um 140 kíló en víða er ræktunarbúnaður ekki endilega hannaður fyrir svona mikla aukna þyngd.“

Sest á lirfusafnara

Hvað skelfiskrækt koma áhrifin fram í afráni á lirfurnar samloka sem rækta á og einnig samkeppni um pláss, hamlar glærmöttullin þá lirfurnar samlokanna í að koma sér fyrir á lirfusöfnurum ræktenda.

„Ef lirfusafnararnir eru fullir af glærmöttli þá fer kræklingurinn ekki á þá, og svo er hann kannski bara að éta einstaklingana sem eru að reyna að setjast á. Þannig að þetta getur orðið frekar dapurt fyrir kræklingaræktendur ef þeir verða illa fyrir barðinu á tegundinni.“

Glærmöttullinn er alls ekki einn á ferð. Innan skamms er von á niðurstöðum úr annarri rannsókn Náttúrustofu Suðvesturlands og samtarfsaðila sem sýnir að sex aðrar framandi möttultegundir hafi numið hér land, þekktir skaðvaldar.

Sindri segir því mikilvægt að grípa strax til aðgerða, þar á meðal þurfi að setja reglur um þrif á flotbryggjum.

„Ef við viljum ekki að þetta komi niður á vistkerfum okkar og atvinnuvegum til framtíðar þá verðum við að fara að breyta regluverkinu. Við erum með ótal dæmi frá nágrannalöndunum sem sýna að taflinu verður ekki snúið við þegar framandi tegundir er sestar hér að. Það eru miklir hagsmunir í húfi, sjálf sjávarvistkerfin, auðlindir okkar í hafi sem við höfum alla tíð lagt okkar traust á. Árleg vöktun eins og sú sem Náttúrustofa Suðvesturland heldur úti er því mjög brýn til að mögulegt sé að fylgjast með stöðunni frá árin til árs og til að hægt sé bregðast við vandanum. Til þess þarf bæði áhuga og vilja stjórnvalda og sveitarfélaga. Í dag er útbreiðsla flestra þessara allra nýjustu aðkomutegunda líklega ennþá bundin við hafnirnar en það gæti breyst mjög hratt ef ekkert er að gert.“