Vottunarstofan Tún hefur staðfest að fyrirtækin Sjóvík ehf. og Fram Foods Ísland hf. uppfylli kröfur Marine Stewardship Council (MSC) um rekjanleika sjávarafurða sem upprunnar eru úr MSC-vottuðum sjálfbærum fiskveiðum. Vottorð þessa efnis voru formlega afhent í  Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík í gær.

Þetta eru fyrstu íslensku fyrirtækin sem hljóta slíka vottun. Í frétt frá Vottunarstofunni Túni segir að rekjanleikavottun samkvæmt staðli MSC geri hinum vottuðu fyrirtækjum kleift að afla sér hráefna og afurða úr MSC-vottuðum fiskveiðum og fiskistofnum, vinna frekar úr þeim og markaðssetja síðan með tilvísun til sjálfbærra sjávarnytja undir hinu þekkta vörumerki Marine Stewardship Council.

Sjóvík ehf. er dótturfyrirtæki Icelandic Group og rekur fiskvinnslur í Kína og Tælandi. Sjóvík sérhæfir sig í vinnslu á sérunnum afurðum úr Kyrrahafsþorski og Alaskaufsa fyrir veitingahús og smásölu.

Fram Foods Ísland hf. var áður Bakkavör Ísland hf. og varð til árið 2003 þegar Bakkavör Group hf. seldi frá sér rekstur félagsins. Í verksmiðju þess í Reykjanesbæ eru framleiddar ýmsar afurðir úr hrognum bolfisks, grásleppu, loðnu og síldar.