Marport hefur opnað sjöundu skrifstofu sína í útvegsbænum Peterhead á Englandi. Marport, sem þróar og hannar veiðarfæranema og veiðarfærakerfi, var stofnað 1997 af Óskari Axelssyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins á Íslandi, en það er nú 100% í eigu bandaríska fyrirtækisins Aimar.

Veiðarfæranemar og veiðarfærakerfi frá Marport eru í velflestum nýjum skipum í fiskiskipaflota Íslendinga. Óskar segir Ísland mikilvægasta markað fyrirtækisins, ekki vegna stærðar hans heldur vegna þess að landið gegnir hlutverki nokkur konar sýningarglugga fyrir aðra markaði. Náið og gott samstarf með útgerðum hefur gert Marport kleift að prófa tækninýjungar og þróa nýjar afurðir.

„Það verða fjórir starfsmenn í Peterhead alla vega til að byrja með. Peterhead er gamalgróinn útgerðarstaður og þarna er líka stór fiskimarkaður. Georg Youngson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri og skrifstofan í Peterhead mun einnig þjóna Shetlandseyjum þar sem er talsverður floti er einnig. Við ætlum okkur að ná stærri hlutdeild á Bretlandsmarkaði. Eitthvað styrkist sá markaður við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu þar sem þeir fara að veiða meira sjálfir í sinni lögsögu,“ segir Óskar.

Það sem einkennir breska markaðinn er fjöldi smærri togbáta sem Óskar segir að dragi nánast undantekningalaust tvö troll. Fyrir Marport eru Bretlandseyjar á lista yfir tíu stærstu markaðina í heimi.

Rússlandsmarkaður lokaður

Marport er stærsta fyrirtækið í veiðarfærastýringum á heimsvísu. Fyrirtækið hefur vaxið á hverju ári og er nú, eins og fyrr segir, með sjö skrifstofur víðs vegar um heiminn, þ.e.a.s. á Íslandi, Bandaríkjunum, Noregi, Frakklandi, Spáni, Suður-Afríku og nú á Bretlandi. Rússlandsmarkaður hefur skipt Marport miklu og hefur fyrirtækið einbeitt sér þar að sölu á veiðarfærastýringum í eldri skip.

„Hvað fjölda skipa varðar er Rússland stærra en Kanada, Grænland, Ísland, Færeyjar og Noregur samanlagt. Ég býst við því að Rússlandsmarkaður sé okkur alveg lokaður en hann var orðinn umtalsverður hluti af okkar viðskiptum,“ segir Óskar.

Hann segir Marport ekki eiga mikið útistandandi af peningum í Rússlandi. Greiðslur hafi jafnan borist liðlega þannig að gott jafnvægi er í þeim málum.

„Það hryggilega við viðskiptaþvinganir af öllu tagi er að það er einfalt að koma þeim á en ár og aldir getur tekið að afnema þær á ný. Í þeim efnum þarf ekki annað en að líta til Kúbu sem hafa mátt sæta viðskiptaþvingunum frá árinu 1962.“