Sjósundkeppni fer fram í Nauthólsvík laugardaginn 28.9.2013. Þar keppa útgerðarfyrirtækin um titilinn „Sjósundgarpur Íslands 2013“. Keppnin er samstarfsverkefni Sundsambands Íslands, Landhelgisgæslunnar og ÍTR, að því er fram kemur á vef Landhelgisgæslunnar.

Keppnin fer þannig fram að keppendur (fulltrúar útgerðarfyrirtækja) stinga sér til sund frá varð- og sjómælingaskipinu Baldri, sem siglt verður inn í Nauthólsvíkina, og synda í land en endamarkið er á sandströndinni í Nauthólsvík við pottinn. Vegalengdin sem synd er  100 metrar.

Dagskrá:

Kl. 13.00 synda meðlimir Sjór (Sjósund- og sjóbaðsfélag Reykjavíkur), sem er aðildarfélag að Sundsambandi Íslands, 260 metra vegalengd. Veitt verða verðlaun fyrir skrautlegasta höfuðfatið.

Kl. 14.00 hefst keppni milli útgerðarfélaga þar sem synt verður frá Baldri í land. Sigurvegari er „Sjósundgarpur Íslands 2013“. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar fylgja sundmönnum eftir á harðbotna bátnum Leiftri og gúmmíbátum þar sem kafarar verða tilbúnir til taks.

Markmiðið er að vekja athygli á fjölbreyttu starfi Sundsambands Íslands, öryggi sjómanna og mikilvægi þess að kunna að synda.