Óvíst er hvað orðið hefur um baskneska túnfiskskipið Alakrana eftir að skipstjóri þess tilkynnti öðru veiðiskipi frá sömu útgerð að sómalskir sjóræningjar væru að ráðast á það á alþjóðlegu hafsvæði í Indlandshafi, um 365 mílum undan strönd Sómalíu.
Skipið var með túnfisknótina úti þegar sjóræningjarnir gerðu atlögu og því áttu skipverjarnir erfiðara með að verjast þeim en ella hefði verið. Í áhöfn Alakrana eru 36 menn, þar af 16 Spánverjar en hinir frá ýmsum Afríkulöndum.
Árásin var tilkynnt flota- og flugsveit Evrópusambandsins sem verndar skip á siglingaleið um Indlandshaf fyrir sjóræningjum og héldu freigáta og fjórar flugvélar til leitar.
Útgerðir spænskra túnfiskbáta í Indlandshafi hafa óskað eftir því við spænsk stjórnvöld að þau grípi til ráðstafana til þess að tryggja öryggi spænskra fiskimanna á þessum slóðum með því að hafa vopnaða sjóliða um borð í veiðiskipunum. Varnarmálaráðherra Spánar hefur svaraði því til að engin heimild sé fyrir því í spænskum lögum og hvetur útgerðirnar sjálfar til þess að ráða öryggisverði frá einkafyrirtækjum.
Þetta kemur fram á sjávarútvegsvefnum FIS.com