Í þessari viku verður lagt fram á þingi Bandaríkjanna lagafrumvarp sem veitir bandarísku strandgæslunni leyfi til að sökkva skipum sem staðin hafa verið að ólöglegum veiðum. Tveir þingmenn frá Alaska leggja frumvarpið fram. Markmiðið er að koma í veg fyrir að skip sem lagt er hald og síðar boðin upp lendi ekki aftur í höndum sjóræningja sem haldi áfram iðju sinni.
Tilefni lagasetningarinnar er taka skipsins Bangun Perkasa um 2.600 mílur suðvestur af Kodiak í Alaska en um borð í því voru 30 tonn af ólöglega veiddum smokkfiski og 30 hákarlar. Skipið var morandi í rottum. Í áhöfn skipsins voru 22 menn af indónesísku, kínversku, tævönsku og víetnömsku þjóðerni. Þeim var öllum vísað úr landi í Bandaríkjunum.
Vonast er til að öldungadeild bandaríkjaþings staðfesti á næstunni samning sem gerir strandgæslunni kleift að taka sjóræningjaskip. Þar er gert ráð fyrir að skipin séu annað hvort sett í brotajárn eða þeim ráðstafað til annarra nota en fiskveiða, svo sem fiskveiðieftirlits í þróunarlöndum eða til rannsókna- og þjálfunarstarfa.
Ef frumvarp þingmannanna nær fram að ganga fær strandgæslan heimild til að sökkva sjóræningjaskipum a.m.k. 50 mílur frá landi og á einnar mílu dýpi eftir að mengandi efni hafa verið fjarlægð úr þeim.
Sjávarútvegsvefurinn fis.com skýrir frá þessu.