Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar á Neskaupstað, segir ýmis krefjandi verkefni bíða á komandi ári.

„Loðnan er enn spurningarmerki, við sjáum fram á samdrátt í makrílheimildum og ósamið er um deilistofna. Á móti kemur að markaðsaðstæður eru góðar á flestum okkar mörkuðum og samstæða Síldarvinnslunnar býr yfir öflugu og úrræðagóðu starfsfólki sem er tilbúið að takast á við nýtt ár með sókn í huga,“ segir Gunnþór í áramótakveðju á vef Síldarvinnslunnar.

Loðnubrestur dró verulega úr hagvexti

Í ávarpi sínu segir Gunnþór að þótt stoðum íslenskt efnahagslífs hafi fjölgað og þær orðið fjölbreyttari sé mikilvægi sjávarútvegsins ótvírætt.

„Þetta birtist meðal annars í því að loðnubrestur olli verulegum samdrætti í hagvexti á árinu og þá hefur Hagsjá Landsbankans spáð því að meðalstór loðnuvertíð á nýju ári gæti aukið hagvöxt um 0,5-1% sem þýðir aukningu um 22-30%,“ segir Gunnþór. Ekki sé búið að gefa út upphafskvóta fyrir næsta ár en hann sé fullur bjartsýni á að svo verði gert. „Samstarf útgerða og Hafró við rannsóknir á loðnunni hefur verið gott og vonum við að það beri árangur í vetur.“

Sjávarútvegurinn ekki hafnað réttlátum auðlindagjöldum

Forstjórinn fer bæði yfir nýliðið ár og horfir fram á veginn í ávarpi sínu. Hann fjallar einnig um stefnu nýrrar ríkisstjórnar í er kemur að sjávarútvegi.

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er komið inn á málefni sjávarútvegsins og meðal annars fjallað um réttlát auðlindagjöld. Ég held að enginn sé því ósammála og hefur sjávarútvegurinn ekki hafnað réttlátum auðlindagjöldum,“ skrifar Gunnþór. Þegar rætt sé um réttlát auðlindagjöld þurfi hins vegar að hafa í huga hvernig staðan sé í dag bæði hér á landi og hjá samkeppnisaðilum erlendis.

Veiðigjöld á uppsjávarfisk hafa margfaldast

„Það liggur fyrir að kolefnisgjöld, sem ekki eru til staðar í sumum samkeppnislöndum okkar í sjávarútvegi, eru að hækka mikið um áramótin. Orkukostnaður hefur sömuleiðis rokið upp á árinu og umhverfisvæn raforka er af skornum skammti. Þá liggur fyrir að veiðigjöld á uppsjávarfisk munu margfaldast um áramótin. Þannig að svigrúm til tvöföldunar á veiðigjöldum, eða stórfelldra hækkana á þeim, er ekki til staðar í núverandi umhverfi,“ segir í pistli Gunnþórs sem síðan ræðir þá stefnu ríkisstjórnarinnar að festa í sessi 48 daga í strandveiðunum þar sem tilfærsla á aflaheimildum hafi verið nefnd.

Síst fallið til að efla hag þjóðarinnar

„Verði um frekari tilflutning að ræða úr aflamarkskerfinu yfir í strandveiðina þýðir það einfaldlega að fyrirtækin verða að bregðast við með hagræðingu. Það getur falið í sér samþjöppun vinnslu og fækkun skipa og þar af leiðandi gæti sjómönnum, sem hafa atvinnu af veiðum, fækkað. Íslendingar tóku upp kvótakerfi og stýringu á veiðum því sjávarútvegurinn sem atvinnugrein var kominn í öngstræti sökum ofveiði og óhagkvæms rekstrar,“ segir Gunnþór. Óheftar ólympískar strandveiðar, án stýringar á magni eða fjölda, séu síst til þess fallnar að auka verðmæti eða hag þjóðarinnar.

Erfitt að sjá að ráðherra auki kvóta umfram ráðgjöf

„Sagan sýnir okkur það og nægir einnig að horfa til Noregs þar sem verð lækkar á ákveðnum tímum ársins þegar smábátar keppast um að veiða óheft á ákveðnum tíma. Þess vegna á ég erfitt með að trúa að matvælaráðherra ætli að auka aflaheimildir umfram vísindalega ráðgjöf sem hefur verið hornsteinn íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins. Í dag byggja gildandi aflaregla og vottanir á þeirri stýringu,“ skrifar forstjóri Síldarvinnslunnar í ávarpi sínum sem lesa má í heild á vef fyrirtækisins.