„Þetta er snilldar kombó,“ segir Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamars Seafood í Grindavík, um það hvernig ólík starfsreynsla hennar og tvær mismunandi menntagráður nýtast henni í starfi í dag.
Að sögn Öldu er sjávarútvegur og fiskvinnsla henni í blóð borinn líkt og flestum krökkum af hennar kynslóð sem alin eru upp í litlum sjávarþorpum.
„Sumarið sem ég var tólf ára fór ég að vinna í saltfiskverkun Sigvalda Þorleifssonar sem þá var og hét. Þar var ég í tvö sumur og fór þá í Hraðfrystihús Ólafsfjarðar. Maður þekkti ekki annað,“ segir Alda sem er fædd og uppalin á Ólafsfirði.
Öldu fannst miklu skemmtilegra í frystihúsinu þar sem hún var með frábæran verkstjóra. „Ég held að það hafi svolítið verið kveikjan að því að ég fór beint upp úr grunnskólanum í fiskvinnsluskóla í Hafnarfirði þegar ég var bara sextán ára að verða sautján,“ segir hún.
„Pabbi minn, Gylfi Jóhannsson var verkstjóri á bryggjunni heima að sjá um uppskipanir, útskipanir og landanir og slíkt. Verkstjórinn í frystihúsinu var æðsti kallinn og þetta var toppurinn á þessari litlu tilveru minni,“ segir Alda sem gekk með þann draum að komast í stjórnunarstöðu í þessari grein.
Fyrirmynd í fiskidrottningu
„Það var ein fiskidrottning sem var ung verkstjóri í gamla Þormóði Ramma á Siglufirði. Hún heitir Bylgja Hauksdóttir og er ekki nema fimm árum eldri en ég og var ein af þeim fyrstu sem urðu yfirverkstjórar í fiskvinnslu eins og það hét þá. Ég leit alltaf upp til hennar og Rannveigar Rist – þó að mitt starf eigi nú ekkert skylt við hennar í dag. Mér fannst mjög spennandi að sjá konu í svona karllægum bransa og vera yfir,“ segir Alda. Þarna hafi hún sótt fyrirmyndir sínar.
„Ég fór í verkstjórn eftir að ég kláraði skólann átján ára. Það gekk ekkert allt of vel. Frystihús á landsbyggðinni voru mjög stór, yfir hundrað manna og það var kannski ekki verið að slást um að ráða átján ára stelpu til þess að stjórna slíku húsi,“ segir Alda.
Kaupfélagsstjórinn hjá Kaupfélagi Dýrfirðinga á Þingeyri, Bjarni Grímsson, var hins vegar Ólafsfirðingur og Alda segir hann hafa ráðið hana sem verkstjóra í frystihúsið þar með þeim orðum að henni væri illa í ætt skotið ef það væri ekki hægt að nota hana.
Verkstjóri í erfiðu húsi
Til að byrja með leist Öldu rétt mátulega vel á blikuna á Þingeyri. „Ég hringdi í pabba eftir nokkra daga og sagði við hann að ég ætlaði að koma heim. Þarna væru bara fimm hús og tvær götur og að mig langaði ekki að vera þarna. Hann sagði mér að gefa þessu séns og það kom helgi og það kom ball og þarna var ég í átján ár,“ segir Alda og hlær.
Að sögn Öldu var hún ekki mörg ár sem verkstjóri á Þingeyri. „Þetta þótti mjög erfitt hús. Þarna var fólk sem maður þurfti virkilega að hafa fyrir til að geta unnið vinnuna sína. Maður var bara óharðnaður krakki þannig að ég hætti eftir um þrjú ár.“
Þótt konurnar í frystihúsinu á Þingeyri hafi reynst erfiðar fyrir Öldu segist hún nú eiga þeim mikið að þakka. „Þetta herti svo vel í mér að mér finnst bara ekkert hreyfa við mér í dag,“ segir hún.
Ekki elsku mamma neitt
Síðan segist Alda hafa „millilent“ í öðru starfi í um tvö ár áður en hún fór á sjóinn. „Ég fór fyrst sem háseti á Sigurbjörgina ÓF 1 á Ólafsfirði. Þar var ég með alveg frábærum köllum. Þeir voru ýmsu vanir og það var ekki elsku mamma neitt. Maður þurfti að standa sig enda á sömu launum og allir hinir og þessir strákar kenndu manni bara hreinlega að vinna,“ segir Alda sem ber þessum mannskap góða sögu.
„Ég ber alltaf sterkar tilfinningar til þeirrar áhafnar, alveg frábærir kallar, allir sem einn. Þeir voru allir naglharðir. Maður lærði að verða einn af strákunum og það var verðmætt. Ef maður ætlar að vera tekinn alvarlega þarf maður að standa sig eins og hinir. Það er ekkert flóknara en það,“ segir Alda.
Tæp sex ár á frystogurum
Alda var þrjú ár á Sigurbjörgu og fór þá yfir á Sléttanes ÍS 808 um miðjan tíunda áratuginn. Þá var verðandi eiginmaður hennar, Bergþór Gunnlaugsson, kominn í spilið. Bergþór er í dag skipstjóri á Tómasi Þorvaldssyni GK í Grindavík.
„Ég sótti um á hans skipi, hreinlega svo að við myndum hittast oftar en á jólunum og á sjómannadaginn,“ segir Alda og hlær. Hún var á Sléttanesi í tæp þrjú ár. „Þar var líka frábær áhöfn. Þannig að ég var alls í tæp sex ár á frystitogara.“
Kærasti með strangar reglur
Bergþór var stýrimaður og skipstjóri þegar þau voru saman á Sléttanesinu þannig að kringumstæðurnar fyrir kærustuparið voru örlítið snúnar.
„Hann hafði mjög stífar umgengnisreglur. Þú hefðir ekki getað giskað á það á göngunum hver þeirra væri maðurinn minn. Það var af virðingu við aðra menn sem áttu sínar konur heima. Ég var rosalega ósátt við þetta fyrst, mér fannst þetta mjög hallærisleg regla – enda bara ung og ástfangin – en eftir á að hyggja þá var þetta auðvitað eina rétta leiðin,“ segir Alda.
Í land til að eignast börn
Allt gekk vel á Sléttanesi en Alda segist hafa hætt til sjós því þau Bergþór hafi ákveðið að fara eignast börn. Hún söðlaði því um og gerðist bankastarfsmaður.
„Ég fór að vinna í Sparisjóði Vestfirðinga á Þingeyri og kunni afskaplega vel við mig á því sviði og hafði þar einn besta yfirmann á ferlinum, Angantý Jónasson, sem kenndi mér margt og ráðleggur mér enn þann dag í dag. Þar vann ég mig ágætlega upp og ákvað þegar ég var 33 ára að fara á Bifröst og læra viðskiptalögfræði,“ lýsir hún.
Fjölskyldan seldi því ofan af sér á Ólafsfirði en þar höfðu þau búið í rúmt ár eftir að faðir hennar veiktist, og flutti í Borgarfjörðinn. Þá var yngri drengurinn tæplega eins árs og sá eldri fjögurra ára. Þar voru þau í þrjú og hálft ár þangað til Alda lauk náminu.
Leiðin barst suður
Á þessum tíma hélt Bergþór áfram að róa á Sléttanesi frá Þingeyri þangað til Þorbjörn í Grindavík keypti skipið og breytti nafni þess í Hrafn GK. „Hann reri þá frá Grindavík í nokkur ár,“ segir Alda sem sjálf fékk stöðu á fyrirtækjasviði Sparisjóðsins á Þingeyri að náminu loknu og fór þangað vestur.
„Þegar sparisjóðurinn sameinaðist sparisjóðnum í Keflavík sá ég færi á því að fá mig flutta á milli starfsstöðva og fór í útibúið í Keflavík, svo við værum nú öll á sama starfssvæðinu, og við fluttum til Grindavíkur,“ segir Alda.
Sparisjóðurinn rann síðan í Landsbankann. Með þeim banka kveðst Alda ekki hafa átt samleið.
Úr í bankanum í fiskinn
„Hann Hólmgrímur Sigvaldason var þá búinn að kaupa verkun á Bíldudal og spurði hvort ég væri tilbúin að reka hana fyrir hann. Ég sagðist ekkert hafa verið í þessum bransa í sautján ár en hann sagði að þetta væri bara eins og að hjóla, að ég hefði engu gleymt,“ lýsir Alda sem var nýflutt suður með fjölskylduna og ætlaði ekki að fara aftur vestur. Hún hafi hins vegar boðist til að setja vinnsluna af stað þegar maðurinn hennar kæmi í land og gæti verið með drengjunum. Það hafi orðið úr og hún hafi verið um skamman tíma á Bíldudal.
„Með þessu stimplaði ég mig aftur inn í fiskibransann. Þetta fréttist einhvern veginn og ég fer þaðan í VOOT beitu og varð framkvæmdastjóri þar þangað til Stefán Kristjánsson í Einhamar Seafood hringdi einn daginn og spurði hvort ég gæti komið og hitt þau hjónin um kvöldið,“ segir Alda. Hún hafi haldið að erindi Stefáns tengdist fjáröflun hjá körfuboltaliði bæjarins þar sem synir þeirra voru iðkendur.
Eitt mesta gæfusporið
„En þá var Stefán að bjóða mér starf sem viðskiptastjóri sem ég sinnti í um tvö ár þangað til hann bað mig um að taka við sem framkvæmdastjóri,“ segir Alda sem nú hefur unnið fyrir Stefán í tólf ár.
„Þetta var eitt mesta gæfuspor sem ég hef tekið. Þarna fann ég mína hillu og allt sem á undan hafði gengið hjálpaði mér í að verða það sem ég er í dag. Það var þetta harðræði og sú áskorun sem ég upplifði á Þingeyri sem herti aðeins í manni og síðan það að fara á sjóinn og það sem á eftir fylgdi,“ segir Alda.
Hefði þótt það fjarstæðukennt
Bæði menntunin sem fiskiðnaðarmaður frá gamla fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði og menntunin sem viðskiptalögfræðingur frá Bifröst fóru afar vel saman í þessu eina starfi að sögn Öldu. Því hefði hún ekki trúað ef einhver hefði sagt það við hana fyrir fram.
„Þá hefði ég spurt hvort viðkomandi væri að taka lyfin sín því þetta er svo fjarstæðukennt. En þetta smellur svo ofsalega vel saman með þeim grunni sem ég hef í faginu frá tólf ára aldri.“
Jólaviðtalið við Öldu heldur áfram hér á vef Fiskifrétta. Þar ræðir hún meðal annars frábæran starfsanda hjá Einhamri Seafood og baráttuna við náttúruöflin í Grindavík.