Fulltrúar sjómanna og útgerðanna funda um kjaramál í dag hátt í hálfum öðrum mánuði eftir að sjómannaverkfall hófst. Samningafundur hefst hjá ríkissáttasemjara klukkan eitt.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 að hann væri ekki bjartsýnn á árangur í dag, eftir fund með sjómönnum um helgina. „Þessir fundir sem við áttum með okkar baklandi, sjómönnum, þeir voru einfaldlega með þeim hætti að sjómenn eru glerharðir á að standa fastir á sínum kröfum.“
Hann segir sjómenn ekkert vera farna að gefa eftir. Þeir geri enn kröfu til dæmis um breytingar á þátttöku sjómanna í olíukostnaði og að útgerðin bæti sjómönnum upp missi sjómannaafsláttar. „Ég hef ekki trú á því að það muni mikið koma út úr fundinum í dag.“
„Hljóðið er nú ágætt. Auðvitað verður það þyngra hvern dag sem líður í þessu verkfalli,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. „Við auðvitað bindum vonir við að við getum haldið áfram á þeim nótum sem við höfum rætt við sjómenn, áður en við tókum þetta hlé, og vonandi náð samningum fljótlega.“