Fundur smábátasjómanna víðs vegar af landinu sem haldinn var í Borgarnesi síðastliðinn laugardag samþykkti ályktun þar sem lýst er undrun yfir því að aldrei hafi tekist að ganga frá kjarasamningi fyrir smábátasjómenn þar sem kjör og réttindi séu tryggð.

Fundurinn skorar á alla smábátasjómenn að standa þétt saman og búa til öflugan þrýstihóp til að tryggt verði að smábátasjómenn njóti þeirra lágmarksmannréttinda að hafa kjarasamning eins og aðrir starfshópar.

,,Það er morgunljóst að smábátasjómenn geta ekki og ætla ekki að sætta sig við það stundinni lengur að enginn kjarasamningur sé til sem tryggir þeim full réttindi. Fundurinn telur það þyngra en tárum taki að kjarasamningsleysi smábátasjómanna skuli hafi verið látið átölulaust. Jafnframt krefst fundurinn þess að smábátasjómenn hafi fulla aðkomu að gerð nýs kjarasamnings við Landsamband smábátaeigenda,“ segir í ályktuninni.