Stéttarfélög sjómanna hafa ákveðið að slíta kjaraviðræðum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum en þar segir jafnframt að kjarasamningar sjómanna hafa verið lausir um nokkurt skeið og á síðustu mánuðum hafa viðræður átt sér stað á milli Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og stéttarfélaga sjómanna um nýja samninga.

Þær viðræður hafa að mati SFS verið gagnlegar og málefnalegar „en því miður ekki leitt til þess að aðilar hafi náð saman um nýjan samning. Í gær kusu stéttarfélög sjómanna að slíta viðræðum við SFS. Það er miður, enda hverfa hvorki verkefnið né ábyrgðin af herðum okkar sem sitjum við samningaborðið.“

Kemur fram í tilkynningu SFS að nokkur munur sé á kröfum einstakra stéttarfélaga sjómanna.

„SFS áætla hins vegar að ef fallist yrði á kröfurnar hlypi kostnaður vegna þeirra á milljörðum króna ár hvert. Launakostnaður er hár í fiskveiðum, en hæst fer hann í um 44% af heildartekjum. Hlutfallið er sannanlega nokkuð misjafnt á milli útgerðarflokka. Ef gengið yrði að kröfum stéttarfélaganna, má ljóst vera að mörg fyrirtæki gætu ekki staðið undir þeim og einstakir útgerðarflokkar gætu jafnvel lagst af. Slíkt þjónar hvorki hagsmunum sjómanna í heild né samfélagsins,“ segir SFS.