Þrátt fyrir afar dræmar markaðshorfur fyrir grásleppu segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, ekkert annað hægt en að vona það besta með komandi grásleppuvertíð. Sumir láta sig verðið litlu skipta, grásleppan sé lífstíll fremur en annað.
Hver bátur fær leyfi til veiða í 25 samfellda daga og stendur vertíðin yfir til 30. júní, samkvæmt reglugerð sem gefin var út 4. mars.
„Ég held að það sé óhætt að segja að það sé nú ekkert spennandi vertíð framundan. Ég var orðinn sæmilega bjartsýnn fyrir svolitlu síðan út af samtölum við menn í bransanum en svo hefur þróunin einhvern veginn verið sú að sú bjartsýni hefur verið að fjara út hjá mér,“ segir Arthur.
„Það hafa verið svolítið misvísandi skilaboð sem maður hefur fengið, annars vegar að það séu litlar birgðir til af hrognum í landinu og síðan hitt að það séu til góðir lagerar annars staðar.“
Liggi mikið af hrognum á lager dregur það væntanlega úr áhuga kaupenda í Evrópu og víðar.
Fátt jákvætt
„Svo eru alls konar hreyfingar í gangi sem hafa áhrif á þetta. Þá hjálpa ekki til þessar hörmungar sem nú ganga yfir Úkraínu, til dæmis. Einnig verður mikið af loðnuhrognum í framboði og það hlýtur að hafa áhrif. Síðan, eftir því sem mér skilst, þá er til dæmis lokað á laxakavíar til Rússlands. Þannig að þetta er allt einhvern veginn frekar að spilast okkur í óhag. Ofan á þetta bætist við að markaðurinn í Kína fyrir frosna grásleppu er steindauður."

- Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda. MYND/Eyþór
En þótt markaðshorfurnar séu kannski ekki sérlega góðar segist Arthur þó varla telja að það verði til þess að menn hætti við. Margir bíði spenntir eftir því að geta hafið vertíðina.
„Já, grásleppuveiðar eru þannig að það eru ekki bara tekjuöflun, þetta er virkileg þörf hjá mörgum fyrir að fara á veiðarnar. Ég hef heyrt í mönnum sem eru þannig að það skiptir þá litlu hvaða verð þeir fá, þeir verða bara að komast á sleppuna. Mér finnst það alltaf svolítið skemmtilegt sjónarhorn þó það sé kannski ekki það hagkvæmasta. Þetta er ákveðinn lífstíll líka, eins og einhver góður maður orðaði það.“
Getur snúist við
Fyrirkomulag veiðanna er óbreytt frá síðasta ári, en sem kunnugt er hafa sjómenn fyrir norðan land og austan stundum borið sig illa þegar líður á vertíðina.
„Já, þetta er alltaf með svona veiðistýringu, alveg sama hvort það er aflamark eða sóknarmark, að það hentar aldrei öllum allstaðar. Það er bara ekki möguleiki. En hættan er alltaf sú að þeir sem byrja fyrst taki kúfinn af eftirspurninni og þeir sitja þá eftir sem eru annars staðar. En svo getur þetta líka snúist við ef það er léleg veiði hjá þeim sem eru fyrstir, Það eina sem getur leitt þetta í ljós er bara tíminn,“ segir hann.
„Svo vitum við ekkert frekar en venjulega hvað kemur út úr þessu blessaða togararalli upp á fjölda veiðidaga. Það er allt háð því. Það er byrjað á 25 dögum og svo kemur í ljós hvað rallið gerir, hvort það bætir einhverju við. En það er með þennan veiðiskap eins og allan annan, það er ekkert annað en að vera bara fullur bjartsýni. Vona það besta en búa sig kannski undir eitthvað lakara en það.“
Á síðasta ári nam útflutningsverðmæti grásleppuafurða rúmum 1,9 milljörðum og hafði þá dregist saman milli ára um 538 milljónir.
„Leita þarf aftur til ársins 2017 til að finna lægra útflutningsverðmæti. Hæst var það 2019 um 2,8 milljarðar,“ segir á vef Landssambands smábátaeigenda.