Sjómenn á Norður-Írlandi hafa farið fram á fjárhagsaðstoð frá stjórnvöldum í kjölfar ótíðar undanfarnar vikur og mánuði að því er fram kemur í frétt á vef BBC. Ástandið er það slæmt að sjómenn hafa ekki komist á sjó til að veiða þá kvóta sem þeim hefur verið úthlutað.
Góðgerðarsamtök sem bjóða neyðaraðstoð fyrir fjölskyldur fiskimanna segja að margir sjómenn eigi við verulega fjárhagserfiðleika að stríða. Nú þegar hafi verið greidd 20 þúsund pund í aðstoð (3,8 milljónir ISK).
Fyrir utan slæmt veður hafa þverrandi veiðiheimildir og hækkandi olíuverð leikið sjómenn grátt. BBC ræddi við Martin Rice, fiskimann frá bænum Ardglass. Veðrið meinar honum að draga björg í bú og því neyðist hann til að standa í biðröð eftir aðstoð. Hann segir að ástandið hafi aldrei verið svona slæmt. Stanslausar brælur hafi verið frá því í nóvember. Þegar lægir inn á milli sé sjórinn enn svo ókyrr að lítið hafi veiðst þótt menn komist á sjó. Sjá viðtalið HÉR .