Sambandsstjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) telur með öllu óásættanlegt að fjársvelti Landhelgisgæslu Íslands hafi leitt til þeirrar skelfilegu staðreyndar að sjómenn sem fjær eru landi en 20 sjómílur geti ekki lengur stólað á hjálp í neyð.
Í ályktun sambandsstjórnarinnar segir ennfremur:
,,Nýlegt atvik um borð í Sturlaugi Böðvarssyni staðfestir svo ekki verður um villst að ekki er spurning hvort, heldur fremur hvenær, ótímabært dauðsfall sjómanns ber að höndum beinlínis af þessum sökum. Nú fer í hönd úthafskarfavertíð á Reykjaneshrygg, en þar hefur reynsla undanfarinna ára leitt í ljós að lífsnauðsynlegt er að liðsinni LHG sé tryggt þegar á þarf að halda.
Skipstjórnarmenn krefjast þess að líf sjómanna verði metið til jafns við líf annarra þjóðfélagsþegna. Til þess að svo megi verða, ber að efla þyrluflota og starfsemi LHG í stað niðurskurðar,” segir sambandssstjórn FFSÍ