Sjómenn víðsvegar að úr Bandaríkjunum fjölmenntu í vikunni á mótmælafund fyrir framan Capitol þinghúsið í Washington til að krefjast breytinga á lögum um stjórn fiskveiða.

Um 3 þúsund sjómenn tóku þátt í þessum fjöldafundi. Talsmenn þeirra halda því fram að árið 2007 hafi verið leidd í lög óraunsæ markmið um uppbyggingu fiskstofna og að þessi markmið séu byggð á vafasömum vísindalegum grunni. Lögin hafa leitt til harkalegs niðurskurðar á veiðum úr mörgum fiskstofnum.

Fulltrúar stjórnvalda benda hins vegar á að nauðsynlegt sé að færa fórnir til að ná langtímamarkmiðum. Þeir segja að þegar búið verði að byggja upp alla fiskstofna eins og að er stefnt muni aflaverðmæti bandarískra skipa aukast úr 4,1 milljörðum dollara í 6,3 milljarða (515-790 milljarð ísl. kr.) sem er um 54% aukning.

Heimild: SeafoodSource.com