Matvælaráðuneytið hefur ákveðið að fjölga veiðidögum á grásleppuvertíðinni úr 35 dögum í 45 daga. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir þessa ákvörðun ekki byggða á óskum sjómanna og rennir helst í grun að með ákvörðuninni sé verið að koma til móts við óskir kaupenda grásleppuhrogna. Málið var ekki borið undir Landssamband smábátaeigenda.

Örn segir að tilkynning ráðuneytisins hafi komið verulega á óvart. Af þeim 130 bátum sem hafa verið á grásleppu í ár séu aðeins 35 bátar enn á veiðum.

„Sjómenn hafa ekki verið nógu sáttir við verð sem er í boði og það kemur skýrast fram í því hve margir hafa hætt veiðum án þess að hafa nýtt sér til fulls sína veiðidaga,“ segir Örn.

Af þeim 95 bátum sem lokið hafa veiðum er um þriðjungur sem hætti áður en 35 daga tímabilið rann út. Meðaltalsfjöldi veiðidaga hjá þeim 95 bátum sem hættir eru veiðum var 32,4 dagar.

Verð til sjómanna mæta ekki tilkostnaði

Stærstu kaupendur grásleppuhrogna hafa fjölda sjómanna í beinum viðskiptum og greiða þeim annað verð en fæst fyrir hrogn til útflutnings sem er í hæstu hæðum. Þau verð skila sér með öðrum orðum ekki til sjómanna. Mikil eftirspurn hefur verið í grásleppuhrogn í Danmörku sem hefur þrýst verðinu upp til útflytjenda. Örn segir að vissulega hafi sjómenn fengið hærra verð miðað við í fyrra en það dugi þó ekki til að mæta öllum tilkostnaði og þegar veiði á mörgum svæðum er minni en áður geti sjómenn ekki náð afkomunni upp með meira magni.

„Þó hefur verið ágæt veiði að undanförnu frá Patreksfirði og Vestfjörðunum og þokkalegt á Ströndunum líka. En á öðrum stöðum hefur veiðin verið minni,“ segir Örn.